135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[13:31]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við höldum hér áfram að ræða um frumvarp til laga um breytingar á lögum um Viðlagatryggingu Íslands sem við ræddum fyrir hádegið og snýst umræðan um að ríkisstjórnin tók sér það vald að setja bráðabirgðalög í kjölfar jarðskjálfta, frægs Suðurlandsskjálfta, sem var þann 29. maí sl. Þann dag var síðasti fundardagur Alþingis og ég sat hér í sæti mínu ásamt fleiri þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni, hv. þm. Kjartani Ólafssyni og Kristni H. Gunnarssyni, og það fór ekki fram hjá neinum sem hér var inni að eitthvað mikið átti sér stað því hér hristust ljósakrónur. Síðar kom í ljós að skjálftinn átti upptök sín suður á landi og eitthvað mikið hafði þar gerst. Þá voru átta ár liðin frá stóra skjálftanum árið 2000 og miklar náttúruhamfarir hafa því leikið Sunnlendinga grátt á þessu tímabili.

Það var strax ljóst að gríðarlegt tjón hlaust af skjálftunum og eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert okkur grein fyrir hafa hátt í fjögur þúsund tjón verið tilkynnt. Það er því ljóst að það tjón sem skjálftinn árið 2008 hefur valdið snertir þúsundir einstaklinga sem margir hverjir eru jafnvel vart búnir að jafna sig á hamförunum árið 2000. Hér var því í einhverjum tilvikum um ítrekuð tjón að ræða hjá sömu einstaklingunum sem, eins og ég sagði áðan, voru enn með skjálftann árið 2000 í fersku minni.

Við höfum rætt það mikið í dag hvort ástæða hafi verið fyrir ríkisstjórnina í þessu tilviki að grípa til þess að setja bráðabirgðalög og ég tel að í ljósi þeirra aðstæðna sem þarna voru uppi og þess gríðarlega tjóns sem mörg þúsund manns urðu fyrir að það hafi verið réttlætanlegt í þessu tilfelli að setja bráðabirgðalög þó að, eins og fram hefur komið í umræðu hér, eigi að beita þeirri heimild mjög varlega. Nú þegar er búið að greiða út hátt í 1,7 milljarða vegna þess tjóns sem þarna varð og trúlega eiga meiri fjármunir eftir að renna út og ég styð þá ákvörðun sem ríkisstjórnin tók á sínum tíma, þ.e. að grípa til bráðabirgðalaga í ljósi þess og þeirrar reynslu sem við urðum fyrir árið 2000.

Stjórnvöld á þeim tíma voru gagnrýnd mikið fyrir að bregðast of seint við, bæði hvað varðar áfallahjálp handa þeim sem lentu í þeim hamförum sem þá gengu yfir, sem og að bæta tjón þeirra sem lentu í tjóni sökum skjálftans. Það var því eðlilegt að mínu viti — náttúrlega með því fororði að menn eiga að fara mjög varlega þegar þeir grípa til bráðabirgðalaga — að setja bráðabirgðalög til þess að aðstoða þær þúsundir einstaklinga og þær mörg hundruð fjölskyldur sem lentu í tjóni nú í vor, að bæta tjón þeirra eins fljótt og verða má og veita þeim hjálp, m.a. áfallahjálp þeim sem á þurfa að halda. Ég vil halda því til haga nú umræðunni að ég tel að Almannavarnir og yfirvöld almennt hafi staðið eins vel að þessu og hægt er. Það var gríðarlegt áfall sem reið yfir Sunnlendinga í kjölfar þessara skjálfta, margir minnugir skjálftanna árið 2000, og það er fagnaðarefni að stjórnvöld virðast hafa lært af reynslunni. Ég tel að yfirvöld hafi að mörgu leyti staðið ágætlega að því að leysa mál í kjölfar skjálftans þó að náttúrlega sé aldrei hægt að uppfylla þarfir allra og um gríðarlega umfangsmikið tjón var að ræða.

Ég vil, hæstv. forseti, taka undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað varðandi 1. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra er heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum. Hér er í raun og veru verið að ganga mun lengra en nauðsyn er til að mínu mati, að ráðherra skuli setja sjálfum sér reglugerðarheimild í þessu. Það var vissulega ástæða til þess að hreyfa eitthvað við eigin áhættu þeirra sem lentu í tjóninu en ég tel að það hafi verið gengið mun lengra en þurfti varðandi það að setja þetta ákvæði um reglugerðina. Við í viðskiptanefnd munum örugglega fara nánar yfir það og ég er sammála því sem hv. þingmenn Kristinn H. Gunnarsson og Steingrímur J. Sigfússon hafa sagt hér í dag að það er ekki sama hvernig ríkisstjórn hagar verkum sínum í málum sem þessu. Hér er um algjört neyðarúrræði að ræða og mér finnst ekkert sjálfgefið að menn beiti því í hvaða tilvikum sem er.

Í ljósi þess að þetta mál, Suðurlandsskjálftinn árið 2008, snertir svo gríðarlega marga einstaklinga, eins og ég nefndi hér urðu hátt í 4.000 tjón á svæðinu, og í ljósi reynslunnar árið 2000 stend ég að því og mun styðja það að þessi bráðabirgðalög verði afgreidd og að við staðfestum þau því hér er vissulega um einstakt tilvik að ræða eins og nefnt hefur verið, stórir Suðurlandsskjálftar koma hér á 100 ára fresti og það er brýnt að bregðast við í þeim efnum.

Um leið og ég nefni það hversu ívilnandi þetta lagafrumvarp er þá get ég ekki látið hjá líða, eins og þegar hefur verið nefnt í umræðunni, að nefna það að margir í samfélaginu lenda í óhöppum sem eru hamfarir út af fyrir sig sem menn geta raunverulega ekki gert að og ég tel að við þurfum að skoða. Við heyrum mörg dæmi þess að hús eru jafnvel að eyðileggjast af ástæðum sem eru nýtilkomnar, vegna myglusvepps. Ég þekki hjón sem lentu í því að þurfa að láta rífa húsið sitt vegna myglusvepps og fá það ekki bætt og þurftu að byggja sér nýtt hús. Vissulega er í mörgum tilfellum um að ræða tjón sem fólk getur sannarlega ekki að gert og tryggingar bæta yfir höfuð ekki.

Ég ætlaði ekki að halda langa ræðu hér en umræðan um þetta mikilvæga mál hefur að mörgu leyti verið ágæt. Ég mun standa að því að styðja þessi bráðabirgðalög með því fororði að menn gangi hægt um gleðinnar dyr hvað valdbeitingu varðar í þeim efnum. En í ljósi þess hversu yfirgripsmikið tjónið var og vegna ásetnings um að menn vilji bæta tjón einstaklinga og fjölskyldna á Suðurlandi með skjótum hætti og að reynt sé að bregðast fljótt við að aðstoða það fólk sem lenti í hremmingunum, þá styð ég þau bráðabirgðalög sem hér eru til umræðu þó svo að vissulega beri að skoða einstaka þætti í því, t.d. þá heimild sem ráðherra veitti sjálfum sér með reglugerðinni sem ég nefndi hér að framan. En í það heila styð ég það frumvarp sem hér liggur fyrir en þó með öllum þeim fyrirvörum sem ég hef viðhaft hér að framan.