135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[13:39]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er kannski ástæða til þess að draga saman helstu atriði í þessu máli og fara stuttlega yfir þau hvert og eitt. Í fyrsta lagi bráðabirgðalögin, að þau skuli hafa verið sett.

Það má segja að nokkuð góður samhljómur sé um það að a.m.k. sé ástæða til að efast um að rétt hafi verið að setja bráðabirgðalög. Ég tel að það hafi ekki verið ástæða til þess, ég leyni þeirri skoðun minni ekki. Það er nákvæmlega sama skoðun og ég hafði á síðasta ári, þ.e. að þetta mál var ekki þannig vaxið að það þyrfti að setja bráðabirgðalög. Það var hægt að leysa úr þeim atriðum sem menn vildu koma á hreint, annaðhvort með lagasetningu síðar eða kalla þing saman ef ástæða var til að fá hana afgreidda fyrr. Bráðabirgðalagaheimild á að nota varlega og það hefur hæstv. viðskiptaráðherra í þessari ríkisstjórn ekki gert.

Í öðru lagi varðandi efnisinnihaldið í lögunum sem sett eru, þau eru umdeilanleg, þá tel ég í fyrsta lagi að það ákvæði að ráðherra veiti sjálfum sér heimild til þess að geta hækkað sjálfsábyrgðina, lágmarksfjárhæð hennar, vera algerlega óþarfa, því að hvaða tilgangi þjónar hún nema væntanlega að ráðherra hafi verið að velta því fyrir sér að það gæti orðið annað tilefni til tjóns frá því að bráðabirgðalög yrðu sett og þar til þing kæmi saman, kannski annar jarðskjálfti? Hann þyrfti þess vegna að hafa heimild til að geta brugðist við með því að breyta lágmarksfjárhæð sjálfsábyrgðar. En ég er ekki viss um að það hafi verið í huga ráðherra vegna þess að heimildin er aðeins til þess að hækka lágmarksfjárhæðina. Þá hefði átt að beita henni þannig, ef þörf er á að hafa hana í bráðabirgðalögum, að í síðara tilviki sem kynni að koma upp væri hærri sjálfsábyrgð og það finnst mér ekki geta staðist. Það er því alveg sama hvernig maður veltir fyrir sér hugsanlegum málsatvikum frá því að bráðabirgðalög eru sett og þar til þing tekur þau til afgreiðslu, að ég sé ekki rökin fyrir því að hafa þessa heimild í lögunum. Ef það hefðu átt að vera einhver rök væri það frekar á þann veg að geta þá lækkað lágmarksfjárhæðina enn frekar miðað við þau rök sem frumvarpið er reist á.

Í öðru lagi er það afturvirknin sem er að finna í 2. gr. laganna og þar segi ég bara hreint út: Ég tel algerlega víst að það stangist á við stjórnarskrá og byggi það m.a. á afgreiðslu heilbrigðis- og trygginganefndar frá 1995 sem tók slíkt ákvæði út úr stjórnarfrumvarpi þá, henti því út og sagði: Menn tryggja ekki eftir á. Við getum ekki sett í lög svona ákvæði eins og þar var og er sambærilegt þessu ákvæði hér. Þá var málið leyst með því að nefndin flutti tillögu um fjárveitingu til að bæta viðkomandi aðila þann skaða sem hafði orðið með beinni fjárveitingu, eingreiðslu. Það hefði verið hægt að gera slíkt hið sama í þessu tilviki.

Þriðja efnisatriðið er um lækkunina á sjálfsábyrgðinni. Ég sagði það í ræðu minni að ég ætlaði ekki að kveða upp úr um það hvort ég legðist gegn því eða styddi það, ég ætlaði að heyra rökin. Þau hafa ekki komið fram. Það sem fullyrt er í frumvarpinu er að byggingarvísitalan hafi hækkað svo mikið frá því að lögin voru sett að þess vegna hafi sjálfsábyrgðin hækkað og það sé óeðlilegt og þess vegna þurfi að bæta það. Ef við lítum á rökin eru þau þannig að byggingarvísitala hefur hækkað örlítið meira en neysluverðsvísitala frá 1992 þannig að sjálfsábyrgðin hefði átt að vera 75 þúsund kr. en ekki 85 þúsund kr. En launavísitalan hefur hækkað miklu meira en byggingarvísitalan á þessum tíma þannig að ef við miðum við launin og getu viðkomandi einstaklings til að bera skaðann hefði sjálfsábyrgðin átt að fara upp í 105 þúsund kr. (Forseti hringir.) Það eru því engin rök í þeirri staðhæfingu sem bráðabirgðalagafrumvarpið byggir á. (Forseti hringir.) Þess vegna segi ég enn og aftur, virðulegi forseti: Það vantar rökin fyrir því að þessari sjálfsábyrgðarfjárhæð sé breytt.