135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[13:50]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa til máls um frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem ríkisstjórnin greip til í vor. Ég hef skýrt út fyrir hv. þingmönnum þær forsendur sem lágu til grundvallar þeirri ákvörðun. Ég held að almenn samstaða sé um það hér á þinginu að ríkisstjórn hverju sinni verður að fara mjög spart með heimildir sínar til þess að grípa til úrræða af þessu tagi. Ég er hjartanlega sammála þingmönnum sem hafa brýnt það fyrir ríkisstjórn. Ég tel hins vegar að í þessu tiltekna máli sé um að ræða allt öðruvísi atvik og málsaðstæður en í sumum tilvikum öðrum sem hafa orðið tilefni deilna hér á síðustu árum.

Hv. þingmenn hafa nánast allir, þó ekki allir, lýst yfir stuðningi við innihaldið og markmiðið með lögunum. Sumir hafa hins vegar talið að ekki væri rétt að fara þá leið sem ríkisstjórnin gerði og þá heldur að kalla saman þing eða, eins og sumir þingmenn hafa sagt, að bíða með það fram í september. Það sem mér finnst skipta máli er að í umræðunni hafa komið fram, m.a. úr röðum stjórnarandstöðunnar, ýmis rök sem styðja málstað ríkisstjórnarinnar. Það kom t.d. fram hjá hv. þm. Jóni Magnússyni, sem hefur víðtæka starfsreynslu sem hæstaréttarlögmaður, að hann telur að ríkisstjórnin hafi ekki farið út fyrir þau mörk sem henni eru sett í stjórnarskránni. Hv. þm. Jón Magnússon nefndi jafnframt nokkur atriði sem styrktu þá skoðun hans.

Í fyrsta lagi sagði hann, og vísaði til stjórnlagaspekinga eins og Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannessonar, sem báðir gegndu prófessorsstöðu í þeim fræðum, og sátu á þingi og voru forsætisráðherrar báðir tveir, að þeir hefðu túlkað það svo að heimildir ríkisstjórnar til þess að beita úrræðinu væru nokkuð rúmar. Í öðru lagi benti hæstaréttarlögmaðurinn og hv. þm. Jón Magnússon á að það yki líka svigrúm ríkisstjórnarinnar að um var að ræða mjög mikinn fjölda fjölskyldna sem verið var að greiða fyrir. Mér finnst mikilvægt að þetta liggi alveg ljóst fyrir. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að hugsanlegt væri að fara aðrar leiðir. Hann nefndi t.d. að hægt hefði verið að klára greiðslurnar í september og í seinni ræðu sinni setti hann fram hugmyndir um að kannski hefði verið hægt að greiða inn á reikning — allt saman rétt hjá hv. þingmanni. Það sem vakti fyrir ríkisstjórninni var að byggja á reynslunni árið 2000 og grípa strax til aðgerða, ganga strax frá því að fólkið vissi að það ætti rétt á þessum ívilnunum. Það tel ég að hafi verið ákaflega mikilvægt.

Ég hef síðan í umræðunni hlustað mjög grannt eftir rökum hv. þingmanna gagnvart ákveðnum annmörkum sem þeir telja vera á lögunum. Þar er þá helst að telja þá heimild sem ráðherra er falin til þess að hækka eigin áhættu þeirra sem eiga tryggt innbú og fasteignir hjá Viðlagatryggingu Íslands gagnvart hamförum af þessu tagi.

Ég er í grundvallaratriðum sammála því viðhorfi sem hefur komið fram að ríkisstjórn sem grípur til bráðabirgðalaga verður að fara mjög gætilega í að grípa til úrræða sem ekki varða beinlínis vandamál sem stafa af atburðunum sem verið er að verjast. Ég hef því fullan skilning á því að ýmsir hv. þingmenn andmæli því að reglugerðarheimildinni sé skotið inn með þessum hætti og ég hef lýst því hér yfir að ég tel að það sé mál sem viðskiptanefnd muni skoða. Ég lýsi því yfir fyrir hönd viðskiptaráðherra að hann hefur ekkert á móti því að það verði skoðað, þá hugsanlega með breytingar í huga eða með því að gera það öðruvísi úr garði, t.d. að ráðherrann hafi ekki svona afdráttarlausa og fortakslausa heimild heldur þurfi kannski að vera þar ákvæði um einhvers konar samráð. Þetta eru hlutir sem viðskiptanefnd skoðar og gerir síðan, þegar hún hefur lokið þeirri skoðun sinni, tillögur um til þingsins.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur vísað til þess að ekki sé heimilt samkvæmt stjórnarskrá að beita lagasetningum með afturvirkum hætti eins og hér er gert. Um þetta hafa oft spunnist umræður á hinu háa Alþingi og ýmsir þingmenn — ég man eftir ræðum frá hv. þm. Pétri Blöndal, sem hér er í salnum — hafa viðrað svipaðar skoðanir af allt öðrum tilefnum.

Nú er það einfaldlega þannig að þarna urðu hamfarir sem snertu á fjórða þúsund fjölskyldna á Suðurlandi. Ríkisstjórnin vildi koma til móts við það tjón sem fjölskyldurnar höfðu beðið og þá er töluvert erfitt, en þó hugsanlega ekki útilokað, að gera það með öðrum hætti. Í þessu tilviki bárust mjög sterkar óskir og ábendingar um að eigin áhætta væri úr hófi há og mjög erfitt er að koma beinlínis til móts við óskir fólks varðandi það atriði nema beita með þessum hætti afturvirkum lögum. Ég get ekki skilið að það varði einungis setningu bráðabirgðalaga því að ég skil hv. þingmann þannig að það gildi einu hvort um er að ræða bráðabirgðalög eða aðra hefðbundna lagasetningu, hann er auðvitað að segja að það sé óheimilt þá sem endranær með þeim rökum sem hann vísar til stjórnarskrárinnar. Ég er honum ekki að öllu leyti sammála og tel að það sé réttlætanlegt í þessu tiltekna máli.

Hv. þingmaður vísaði t.d. til dæmisins frá 1994. Ég þekki það, ég var umhverfis- og skipulagsráðherra þegar það brast á, þegar snjóflóð varð í Tungudal (KHG: Skíðalyftan fór.) og skíðalyftan fór. Mig minnir að þurft hafi 90 milljónir til þess að mæta því tjóni. Það er rétt hjá hv. þingmanni að frumvarpið sem þá kom fram — líklega frá mér eða hugsanlega fjármálaráðherra, (KHG: Tryggingaráðherra.) já, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á þeim tíma — gerði ráð fyrir afturvirkni. Nefndin sem fjallaði um það kaus að leysa málið með öðrum hætti, fella það út til þess að ná samstöðu í nefndinni. Ekki voru allir algjörlega sammála því á sínum tíma. Tjóninu var síðan mætt með sérstakri greiðslu sem heimild var sótt um á fjárlögum. Það er aðferð, það var auðvelt að beita henni þar vegna þess að þar var um að ræða eitt tiltekið tilvik. Hér er um að ræða þúsundir tilvika og sum eiga eftir að koma fram og það er þess vegna sem þessi frestur er gefinn fram í tímann. Þá hefði verið miklu óhönduglegra að sækja í hvert einasta skipti um sérstaka fjárveitingu á lögum. Þetta er sjónarmið hjá hv. þingmanni en ég er því bara ekki sammála í þessu dæmi.

Hv. þingmaður vék síðan að því að ekki væri sanngjarnt gagnvart öðrum sem hafa þolað tjón áður, í fortíðinni, að breyta sjálfsáhættunni með þessum hætti. Hann vísaði til Flateyrar, hann vísaði til jarðskjálftans á Suðurlandi árið 2000. Þeim hamförum sem urðu á Suðurlandi er í þessu tilviki ekki hægt að jafna við snjóflóðin sem urðu fyrir vestan, eins og hv. þm. Jón Magnússon rakti er tjónið annars eðlis. Í snjóflóðunum er um það að ræða að þar varð í mörgum tilvikum gríðarlega mikið tjón á eignum fjölskyldna, á Suðurlandi sættu hins vegar mjög margar fjölskyldur töluverðu tjóni en það var miklu lægra þannig að sjálfsábyrgðin eða eigin áhættan beit miklu fastar. Þetta eru ein rök.

Önnur rök eru síðan þau að auðvitað er tekið mið af því hvað tíðkast á markaði. Aðstæðurnar voru öðruvísi á markaðnum 1992 en þær eru 2008 og hugsanlega eilítið öðruvísi — þó að ég hafi ekki skoðað það — en árið 2000. Tilhneigingin í samkeppni á markaðnum hefur með öðrum orðum verið sú að eigin áhætta sem tryggingafélögin nýta hefur verið að lækka. Staðan er einfaldlega þannig núna að á meðan hún er 85 þús. kr. varðandi lausaféð hjá Viðlagatryggingu er hún 10–20 þús. hjá félögunum. Þetta var mismunurinn sem menn voru að benda á. Þessi munur hefur aukist með árunum, það eru önnur rök fyrir því að fara þessa leið.

Í þriðja lagi er það svo að þó að hv. þingmaður bendi á að lítill munur sé á verðlagsvísitölu, hún hafi ekki hækkað mikið minna en byggingarvísitala og ef menn horfa á launavísitöluna sé munurinn á hinn veginn, þá er það samt sem áður svo að samkvæmt þeim tölum sem ég hef þá hefur byggingarkostnaðurinn meira en tvöfaldast á föstu verðlagi frá því að lögin voru sett 1992 til júní sl. Ég dreg það mjög í efa að sama þróun hafi verið á því sem við getum kallað verðlag á innbúi. Það er hugsanlegt að ef við hefðum vísitölu fyrir það mundi hún vera nær verðlagsvísitölu, ég er bara ekki viss um það. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé fyllilega réttlætanlegt að nýta ekki lengur þessa viðmiðun við byggingarvísitölu. Vísitölu byggingarkostnaðar er ætlað að sýna breytingar á kostnaði við byggingu á einni tiltekinni tegund íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Hún er vísitala kostnaðaraðfanga sem byggist á því að verðleggja aðföng, bæði vinnu og efni sem þarf til að byggja fjölbýlishús. Ég veit ekki hvort rétt er að beita þeirri viðmiðun við að meta hver á að vera lágmarksupphæð sjálfsábyrgðar í húsum sem ekki eru fjölbýlishús á Suðurlandi, þannig að mér finnast það líka vera viðbótarrök. Ég tel ekki að þessi tegund vísitölu sé heppileg til þess að bæta samkvæmt lögum um viðlagatryggingu tjón sem verður á lausafé. Þetta eru kannski fjórðu rökin í þessu. Svo getur hv. þingmaður auðvitað ráðið því hvort hann tekur eitthvert mark á því.

Hv. þingmaður vísaði hér til stallsystur minnar fornrar á þingi og hans, Margrétar Frímannsdóttur, sem var framsögumaður fyrir stjórnarskrárbreytingunum 1991. Ég var á þingi þá og hv. þingmaður líka ef ég man rétt, ég held að við höfum þá báðir verið að koma inn sem fullgildir fýrar á þessi mið. Margrét Frímannsdóttir tók það skýrt fram í framsögu sinni þá að þrátt fyrir hinar þrengri heimildir sem sú breyting fól í sér væri þó heimilt í sérstökum neyðartilvikum að grípa til þessa úrræðis. Hv. þingmaður las þetta sjálfur upp. Þó að minni mitt sé ágætt þá mundi ég þetta ekki orðrétt en ég greip þetta úr ræðu hv. þingmanns. Sú ágæta þingkona sem hv. þingmaður vísar til um stuðning við sín rök hélt þessu þó opnu, sérstökum neyðartilvikum, og ég tel að hægt sé að fella þetta undir það. Ég fellst því ekki alveg á þessa tegund raka hjá hv. þingmanni.

Þetta, frú forseti, er meginefni þess sem menn hafa rætt hér í dag. Hv. þm. Jón Bjarnason bað mig líka að fara yfir stöðuna og hvernig til hefði tekist. Nú er hann ekki í salnum þannig að ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það. Almennt vil ég þó segja þetta: Ég held að það sé útbreidd skoðun að ákaflega vel hafi tekist til við að greiða úr þeim vandamálum sem upp komu vegna jarðskjálftanna nú í júní. Ástæðan er sú að menn fóru mjög vandlega yfir viðbrögðin árið 2000. Þá riðu líka yfir skjálftar, ekki jafnstórir, tveir skjálftar, og menn lærðu vel af þeim. Ég verð að segja það eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson og fleiri að ég dáist að skipulagi Almannavarna, hvernig þær tóku á þessu máli, bæði fyrstu dagana eftir að jarðskjálftinn reið yfir en líka þegar leið fram á sumarið.

Eitt af því sem menn tóku upp á grundvelli reynslunnar frá árinu 2000 var að starfrækja tímabundna þjónustumiðstöð og sú ákvörðun byggðist á heimild í lögum um almannavarnir. Eins og menn muna var það einn af kollegum okkar sem var fenginn til þess að veita henni forstöðu, Ólafur Örn Haraldsson, og hann hefur gert það með stökum sóma. Það hefur verið snar þáttur af verkefnum þjónustumiðstöðvarinnar að greiða úr vanda einstaklinga og fjölskyldna og vísa þeim áfram í kerfinu og helst leysa ákveðin mál. Þetta tryggði það, sem var mikilvæg reynsla frá árinu 2000, að íbúar sem lent höfðu í þessum hremmingum þyrftu ekki að sækja á marga staði til þess að fá úrlausn sinna mála. Þetta er eitt af því sem menn lærðu og hafa gert óskaplega vel.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka fyrir þessa umræðu. Ég vona að menn skoði þetta vel og rækilega í nefnd og veiti málinu skjótt brautargengi.