135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007.

626. mál
[16:00]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Gunnars Svavarssonar, um fyrrverandi ríkisendurskoðanda, Sigurð Þórðarson. Ég þakka honum góð störf og tek undir árnaðaróskir til nýs ríkisendurskoðanda.

Í þeirri ársskýrslu sem hér liggur fyrir, og er afgreidd frá nefndinni í nefndaráliti sem formaðurinn gerði grein fyrir, er farið yfir helstu þætti starfseminnar og þeim gerð góð skil. Meginviðfangsefni, hlutverk og helstu áhersluþættir, þessarar ríkisstofnunar er rakið. Jafnframt er bent á að á árinu 2007 séu liðnir tveir áratugir frá því að lög um Ríkisendurskoðun tóku gildi.

Ég held að í því ljósi, sem ég kem raunar að síðar í ræðu minni, sé vert að íhuga hvort þörf sé á því að fræða og taka til umfjöllunar með ítarlegum hætti starfshætti Ríkisendurskoðunar, hvernig farið er með þær upplýsingar sem þar er unnið úr og hún skilar frá sér. Að sjálfsögðu er það meginatriði í störfum Ríkisendurskoðunar að sjálfstæði hennar sem eftirlitsstofnunar sé tryggt og trúverðugleiki hennar hafinn yfir allan vafa.

Í meginatriðum má skipta verkefnum stofnunarinnar í tvennt, endurskoðun ríkisreiknings og reikninga ríkisaðila og hins vegar stjórnsýsluendurskoðun. Í ársskýrslunni kemur fram að stofnunin hafi að jafnaði áritað um 330 ársreikninga og sent frá sér um 250 endurskoðunarbréf eða skýrslur. Þetta er mikil vinna og ég minnist þess að í umræðum um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 2006 var því varpað fram af hv. þm. Ármanni Ólafssyni hvort ekki mætti færa fleiri verkefni á þessu sviði frá stofnuninni út til markaðarins og til einkaaðila þannig að meira svigrúm gæfist innan stofnunarinnar til að takast þá á við hitt meginviðfangsefni Ríkisendurskoðunar sem er stjórnsýsluendurskoðunin. Hún felst í því, eins og sagt er frá í skýrslunni, að kanna hvernig skyldum stjórnvalda er sinnt og hvernig skattfé því sem almenningur leggur inn til ríkissjóðs er varið.

Það er kannski sá þáttur sem ég hyggst gera að meginumræðuefni mínu við þessa umræðu, þ.e. þær stjórnsýsluúttektir og vinnan með þær, hvernig farið er með þær. Það kemur fram að á frá árinu 1987 hafa alls verið gerðar 77 stjórnsýsluúttektir af ýmsum toga. Ef litið er til einstakra kafla skýrslunnar þá hef ég staldrað við þann kafla sem fjallar um kennitölur stofnunarinnar og umsvif og árangur. Við þekkjum það ágætlega að því verki er ætlað að mæla þá þætti sem menn telja að skipti meginmáli. Stofnunin hefur sett sér að mæla fjögur lykilsvið, þjónustu, innri verkferla, starfsmenn og þróun og fjármál. Þetta er tíðkað í nútímarekstri og sjálfsagt að viðhafa slíkt verklag innan starfsemi Ríkisendurskoðunar og gott mál í sjálfu sér.

Í skýrslunni kemur raunar líka fram að Ríkisendurskoðun hefur leitast við að fylgja eftir þeim stjórnsýsluúttektum sem hún hefur unnið. Fram kemur að hún meti árangur sinn að einhverju leyti í kjölfar þeirra stjórnsýsluúttekta sem gerðar hafa verið. Á árinu 2007 og fram til byrjunar ársins 2008 samdi hún eftirfylgniskýrslur vegna fimm úttekta frá árinu 2004.

Borið saman við það sem ég hef fengið í hendur frá því að ég tók til starfa hér á hinu háa Alþingi, ef maður reynir að meta árangurinn af þessu starfi, virðast sömu athugasemdir endurteknar aftur og aftur um rekstur stofnana — og maður hlýtur að spyrja hvernig standi á því. Ég tel eðlilegt að við leitum skýringa á því hvers vegna slíkar athugasemdir endurtaka sig og hvers vegna þær eru þá ekki fullnustaðar. Á bls. 28 í ársskýrslunni er tafla þar sem dregin eru upp viðbrögð við ábendingum Ríkisendurskoðunar í þessum stjórnsýsluúttektum og tekin ákveðin dæmi. Árið 2006 eru tvær skýrslur með 16 ábendingar, 12 eru framkvæmdar. Á árinu 2007 eru þetta fimm skýrslur, 38 ábendingar og 23 framkvæmdar. Innra eftirlit 2007 voru fimm skýrslur, 154 ábendingar og 108 framkvæmdar.

Ég vil leyfa mér að vitna orðrétt í skýrsluna, með leyfi forseta:

„Það liggur þó ljóst fyrir að stofnunin setur ekki fram ábendingar nema hún telji þær eðlilegar og réttmætar. Það hlýtur að vera markmið hennar að sem flestar séu teknar til greina og helst ekki undir 70%.“

Þegar á heildina er litið teljast niðurstöður þessarar eftirfylgnisúttektar, 68,8%, því ásættanlegar. Ég spyr: Er það ásættanlegt að ábendingar frá þessari stofnun séu ekki teknar til greina, ekki nema rétt rúmlega tveir þriðju athugasemda? Spyrja má hvort við þurfum að fara ofan í það, stofnunin sjálf eða Alþingi, hvers vegna athugasemdir eru settar fram af þessari trúverðugu og traustu stofnun ef ekki er farið eftir þeim. Ég tel nauðsynlegt að vinna þessar úttektir og meta árangurinn til þess að geta gert sér betur grein fyrir því hvernig stofnuninni gangi að verða við þeim markmiðum sem henni er ætlað að ná. En ef árangurinn af þessu er með þessum hætti þá hlýtur það að kalla á það hvernig við ætlum að vinna með þetta.

Ég tel ekki ofmælt að ætla að eftirlitshlutverk Alþingis, sem Ríkisendurskoðun leikur í rauninni lykilhlutverk í, verði styrkt að þessu leyti. En hvernig við eigum að gera það, hvernig við eigum að rækja það, þar finnst mér aftur á móti pottur brotinn. Kannski vegna þess að það er ekki nægilega vel skilgreint. Það hefur komið fram í fyrri skýrslum og í umræðum meðal þingmanna hefur verið varpað fram spurningum um það hvernig fara eigi með gögn, skýrslur og greinargerðir, sem frá Ríkisendurskoðun koma. Á því var gerð bragarbót á síðasta þingi þegar forsætisnefnd tók upp það verklag að setja reglur um þinglega meðferð skýrslna stofnunarinnar og það var ákveðinn áfangi. En maður getur samt sem áður spurt sig: Hvernig á síðan að fylgja þeim úr hlaði? Ég tel mjög mikilvægt að við mótum okkur með einhverjum hætti reglur um það hvernig eftirfylgninni verður háttað.

Þetta liggur í sjálfu sér ágætlega fyrir í mínum huga varðandi fjárhagslega þætti þeirrar úttektar sem verið er að gera. Þar kemur til kasta fjárlaganefndar og ég tel eðlilegt og sjálfsagt að hún kalli til nýskipaðan ríkisendurskoðanda og eigi við hann viðræður um það með hvaða hætti við getum komið þessum hlutum til betri vegar.

Í lokin vil ég vekja athygli allra hv. þingmanna, sem sitja undir þessum umræðum, á kaflanum um starfsmenn og þróun. (Forseti hringir.) Þar kemur fram að starfsmannavelta er óvenjumikil hjá stofnuninni (Forseti hringir.) og er full ástæða til að leita leiða til að bregðast við þeirri stöðu.