135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2007.

626. mál
[16:27]
Hlusta

Frsm. fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í lokin fá að þakka fyrir þessa umræðu um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar. Hér hefur verið farið yfir sameiginlegt nefndarálit fjárlaganefndar en einnig hafa hv. þingmenn vikið að ýmsum staðreyndum í rekstri Ríkisendurskoðunar og starfsemi hennar. Ég get tekið undir mjög margt sem hér hefur verið sagt, ef ekki allt. Til að mynda vék hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að því að því miður væri ekki alltaf farið eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar er varðar m.a. stjórnsýsluúttektir og þá skýrslu sem lýtur að framkvæmd fjárlaga. Það er afar mikilvægt að mótað sé nýtt regluverk um eftirfylgni þessara ábendinga, að ábendingunum, hvort sem þær koma fram í greinargerð eða skýrslum eða í einstaka yfirlitsúttektum, er þarft að fylgja eftir. Fjárlaganefnd hefur reynt að móta sínar reglur. Varaformaður fjárlaganefndar, Kristján Þór Júlíusson, lýsti því einnig yfir að við mundum eiga viðræður við nýjan ríkisendurskoðanda, Svein Arason, til þess að fara yfir þessi mál og sjá hvernig við getum fetað okkur í áttina að betri vinnubrögðum. Við höfum ekki heyrt annað, hv. þingmenn, en að ríkisstofnanir vilji hafa þessa hluti með öðrum hætti en nú er og einnig ráðuneyti.

Eins get ég tekið undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason vék að, að afar mikilvægt sé að standa vörð um sjálfstæði og trúverðugleika ríkisstofnana og það óhæði og hlutleysi sem fólgið er í störfum Ríkisendurskoðunar. Við, hv. þingmenn, eigum að tala þannig til stofnunarinnar og styðja hana í þeim störfum sem hún vinnur að. Á sama hátt get ég tekið undir það sem hv. þm. Jón Bjarnason vék að er varðar hin opinberu hlutafélög og hlutafélagaformin. Ég ætla ekki að fara að deila við hann eins og hann gerði í ræðu sinni um hvort eðlilegt væri að færa einstakar stofnanir út í hlutafélög eða slíkt. Ég get hins vegar verið alveg sammála honum í því, eins og fyrrverandi ríkisendurskoðandi vék að, að það er örðugra fyrir Ríkisendurskoðun miðað við núverandi löggjöf að fylgjast með ríkisreikningum og eftirliti hjá umræddum félögum þegar þau starfa í svokölluðum E-hluta ríkisreiknings. Á þetta hefur verið bent og það má vel vera að hægt sé að fara fram með breytingar annaðhvort í fjárreiðulögum eða þá í því eftirlitshlutverki sem Ríkisendurskoðun sinnir. Um leið hefur hinum opinberu hlutafélögum verið gefið nokkurt sjálfræði í rekstri sínum og þau fara þar af leiðandi fram með annað form gagnvart fjárlögum.

Hv. þm. Ásta Möller vék að starfsmannahaldinu og að því hversu hæft og ábyrgðarfullt starfsfólk Ríkisendurskoðunar er. Við í fjárlaganefnd höfum nýlega fengið til starfa starfsmann frá Ríkisendurskoðun. Hann flutti sig um set í sumar og á sérstaklega að vera stjórnarandstöðunni til ráðgjafar í störfum er lúta að verkefnum fjárlaganefndar. Það er mikið sótt eftir því að fá starfsfólk Ríkisendurskoðunar til starfa, hvort sem er hjá sveitarfélögum eða í fjármálageiranum.

Að lokum vil ég, eins og hv. þm. Ármann Kr. Ólafsson, færa þakkir til fyrrverandi ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, fyrir hans öflugu störf til handa stofnuninni og í samstarfi við Alþingi á umliðnum árum og áratugum. Ég óska nýjum ríkisendurskoðanda velfarnaðar í störfum sínum sem og stofnuninni allri og starfsfólki hennar. Ég tek algerlega undir það sem hv. Ármann Kr. Ólafsson kom að í ræðu sinni.