135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

fjarskipti.

523. mál
[16:33]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir svohljóðandi nefndaráliti samgöngunefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, með síðari breytingum:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson og Maríu Rún Bjarnadóttur frá samgönguráðuneytinu, Gest G. Gestsson frá Vodafone, Auði Ingu Ingvarsdóttur og Hallmund Albertsson frá Símanum hf. – Skipti og Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir frá Ríkisútvarpinu, Skipti hf. (Síminn hf. og Míla ehf.), Viðskiptaráði Íslands, ríkislögreglustjóra, Og fjarskiptum ehf. og Alþýðusambandi Íslands.

Frumvarpinu er ætlað að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, EB, nr. 717/2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og um breytingar á tilskipun 2002/21/EB sem kveður m.a. á um hámarksverð í heild- og smásölu fyrir símtöl í reiki í farsímanetum. Frumvarpinu er einnig ætlað að efla neytendavernd og styrkja heimildir Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fjarskiptafyrirtæki með umtalsverðan markaðsstyrk. Þá eru felld niður sérstök ákvæði um heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að kveða á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita innanlandsreiki í farsímanetum en önnur almenn ákvæði fjarskiptalaga sem kveða á um aðgang að netum og þjónustu í VII. kafla eru talin nægja.

Á fundum sínum ræddi nefndin m.a. nýja heimild Póst- og fjarskiptastofnunar til að leggja smásölukvaðir á fyrirtæki telji hún að heildsölukvaðir muni ekki skila tilætluðum árangri. Stofnunin hefur til þessa eingöngu haft heimild til að leggja á heildsölukvaðir til að efla virka samkeppni og tryggja hagsmuni notenda. Nefndin varð vör við nokkra gagnrýni á þessa nýju heimild stofnunarinnar þar sem bent var á að eðlilegt væri að einungis yrði gripið til smásölukvaða þegar og ef heildsölukvaðir dygðu ekki. Nefndin áréttar að einungis verði gripið til smásölukvaða, skv. 2. gr. frumvarpsins, ef stofnunin telur að heildsölukvaðir skili ekki tilætluðum árangri. Nefndin telur því ekki þörf á breytingu hvað þetta varðar.

Nefndin fjallaði einnig um neytendavernd þá sem frumvarpinu er ætlað að styrkja. Í 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um hámarksverð í heild- og smásölu fyrir reikisímtöl í farsímanetum. Er greininni ásamt öðrum frumvarpsákvæðum m.a. ætlað að ná fram því markmiði reglugerðar nr. 717/2007 að notendur farsímaneta innan Evrópska efnahagssvæðisins borgi hóflegt verð fyrir reikiþjónustu innan EES þegar þeir hringja eða svara símtölum í farsímaþjónustu. Umsagnaraðilar gagnrýndu ákvæðið þar sem ekki er gert ráð fyrir að hægt sé að gefa reikiverð upp í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum. Reikiverð er ákveðið til eins árs og lækkun á gengi íslensku krónunnar getur því haft áhrif á framlegð af reikisímtölum. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins kveður á um að samgönguráðherra setji reglugerð um reiki þar sem m.a. skal kveða á um hámarksverð fyrir reikisímtöl. Listinn sem gefinn er upp í ákvæðinu er ekki tæmandi og því eðlilegt að í reglugerðinni séu einnig reglur varðandi önnur atriði tengd reikiverði.

Nefndin leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins en að öðru leyti skrifa allir nefndarmenn undir þetta nefndarálit.