135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[17:07]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í mínum huga er póstþjónustan alvörumál. Grunnpóstþjónusta fyrir alla landsmenn er stórmál fyrir byggðirnar, hvort sem það eru íbúar í Reykhólahreppi, Barðastrandarsýslu, Ströndum, Skagafirði eða uppsveitum Árnessýslu. Þetta er forsenda fyrir samkeppnishæfu atvinnulífi og búsetu á þessum svæðum eins og á öllu landinu.

Þess vegna er það mér alvörumál þegar fyrirtæki eins og Íslandspóstur fer út í stórfelldan niðurskurð og breytingu á þjónustu með einhliða hætti. Það ver ekki þennan rétt að mínu mati þegar varúðarkerfið sem hefur verið byggt upp í formi eftirlitsstofnana í Póst- og fjarskiptastofnun og úrskurðarnefnda gengur ekki upp heldur heimilar að þessi þjónusta sé skorin niður.

Þá segir mér eitthvað að þetta eftirlitskerfi virki einfaldlega ekki. Þegar talað er um úrskurðarnefndir og þess háttar er það þess vegna fyrir mér og okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eitthvað sem ekki virkar gagnvart því sem á að virka, þ.e. að allir landsmenn hafi sama rétt hvað varðar póstþjónustu.

Þess vegna er sama hvort ráðherra eða Hæstiréttur skipar úrskurðarnefnd, ef hún virkar ekki er hún engin hjálp fyrir íbúa þessara svæða.

Það er alveg rétt, ég bar fram fyrirspurn til ráðherrans í vor um póstþjónustuna. Ég fékk ekki svar þá en núna kemur loksins (Forseti hringir.) svar þar sem er snúið út úr og ráðherra segir að málið komi sér ekki (Forseti hringir.)við.