135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[17:09]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að póstþjónustan skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir byggðir landsins ekki síður en höfuðborgarsvæðið.

Ástæðan fyrir því að ég kem hér upp í andsvar er afstaða hv. þingmanns til úrskurðarnefnda. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en svo í síðasta andsvari hans að hann væri í raun og veru að segja að þessum úrskurðarnefndum — nú skal ég ekki fullyrða hvort hann átti við úrskurðarnefndir almennt en hann átti alla vega við úrskurðarnefnd póst- og fjarskiptamála — væri yfir höfuð ekki treystandi. Það er mjög sérkennileg fullyrðing úr ræðustóli Alþingis miðað við afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til úrskurðarnefnda fram að þessu.

Hvað á þingmaðurinn við með þessari fullyrðingu í raun og veru? Leggur hann til að í þessu tilfelli verði úrskurðarnefndin lögð niður þannig að „litli maðurinn“ — sá sem þarf að leita úrskurðar vegna þess að honum finnst brotið á sér — fari beint til dómstóla? Mér þykja það merkilegar fréttir því fyrir hinn almenna notanda þessarar þjónustu þýðir þetta að hann getur ekki leitað réttar síns ókeypis til úrskurðarnefndar heldur þarf að fara með sín mál með tilheyrandi kostnaði fyrir dómstóla. Ég gat ekki skilið hv. þm. Jón Bjarnason öðruvísi en að hann legði þetta til og það þykja mér býsna mikil tíðindi.