135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[17:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil benda á að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í samgöngunefnd, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, er með fyrirvara á álitinu sem undirstrikar að sú lagaumgjörð sem sett var um markaðsvæðingu póstþjónustunnar var ekki gerð með vilja og samþykki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Núna er verið að lappa upp á skipan úrskurðarnefndar um fyrirkomulag markaðsvæddrar póst- og fjarskiptaþjónustu en það fyrirkomulag er okkur ekki að skapi. Þessi uppálöppun er því ekki aðalatriðið í verndun þeirrar þjónustu.

Ég vil benda á eitt. Í breytingartillögunni stendur að málshöfðun fresti í sjálfu sér ekki gildistöku úrskurðarnefndar. Ég las upp bréf frá sveitarstjóra Reykhólahrepps sem er ósáttur við úrskurð nefndarinnar og vill leita til dómstóla fyrir hönd íbúanna. Hann biður um að gjörningnum, lokun pósthússins og fækkun póstburðardaga, verði frestað meðan verið er að ganga frá. Samkvæmt þessum lögum er það ekki hægt en ég er ekki sammála því. Ég tel að það eigi að vera svigrúm til þess að fresta gildistöku úrskurðar ef hann er kærður í slíkum tilvikum sem lúta að almannaþjónustu.

Ég bið hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, sem ég held að beri hug allra landsmanna fyrir brjósti hvað varðar póstþjónustu eins og ég, (Forseti hringir.) að setja sig í spor íbúa á Reykhólum sem fá þessi skilaboð (Forseti hringir.) frá almannaþjónustufyrirtækinu (Forseti hringir.)Íslandspósti um (Forseti hringir.) lokun póstafgreiðslu og fækkun (Forseti hringir.)póstburðardaga í héraðinu.