135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

verðtrygging.

[13:38]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra út af verðtryggingu. Verðbólgan er nú ein sú hæsta í 20 ár og er að sliga heimilin í landinu. Við heyrum fréttir um margar fjölskyldur sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Allt er yfirfullt hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og mikilvægt fyrir okkur að ná tökum á þeirri óðaverðbólgu sem nú ríkir í samfélaginu. Það er því mikilvægt að hagsmunir allra séu í því að hér á landi sé verðlag stöðugt.

Ef við horfum til uppgjörs bankanna, síðustu tvö ársfjórðungsuppgjör, virðast þeir ekki beinlínis hafa tapað miklu á verðfalli krónunnar og þeirri verðbólgu sem hlotist hefur af falli hennar. Þvert á móti sýnir uppgjör bankanna mikinn gróða meðan almenningur í landinu býr við hæstu verðbólgu til 20 ára. Það er því nauðsynlegt að báðir aðilar, bankar og þeir sem við þá skipta, hafi hagsmuni af því að hér á landi sé verðlag stöðugt rétt eins og gerist og gengur í nágrannalöndum okkar. Mig langar því að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort hann hafi skoðað og hvað honum finnist um þá hugmynd að bankarnir taki á sig hluta af kostnaði vegna verðtryggingar. Þegar lántaki tekur lán hjá banka sé samið um ákveðna hlutfallsskiptingu þannig að það séu líka hagsmunir bankanna að hér á landi sé verðlag stöðugt. Við þurfum, eins og ég sagði áður, á því að halda að það séu sameiginlegir hagsmunir allra að verðlag sé stöðugt, að krónan hoppi ekki og skoppi eins og hún hefur verið að gera síðustu mánuði. Það er því mikilvægt að fá svar frá hæstv. ráðherra um það hvort hann sé viljugur að beita sér fyrir því að það verði hagsmunir bæði banka og þeirra sem við þá skipta að verðlag sé stöðugt og menn skipti að einhverju leyti á milli sín kostnaðinum sem hlýst af mjög hárri verðbólgu sem nú geisar í landinu.