135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

síðari för menntamálaráðherra á Ólympíuleikana.

[13:45]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Það væri út af fyrir sig vel þess virði að blanda sér í þær umræður sem hér voru en ég beini hins vegar fyrirspurn til menntamálaráðherra. Í Morgunblaðinu, vefblaðinu þann 22. ágúst, var gerð grein fyrir því að menntamálaráðherra ætlaði að fara til Peking öðru sinni og mun hafa farið þann 23. ágúst 2008 ásamt eiginmanni sínum og ráðuneytisstjóra og maka hans.

Vegna þessarar ferðar vil ég spyrja eftirfarandi: Hver tók ákvörðun um að menntamálaráðherra skyldi fara þann 23. ágúst öðru sinni fyrirvaralítið á Ólympíuleikana í Kína en þá mun menntamálaráðherra hafa verið starfandi forsætisráðherra í leiðinni? Í annan stað: Var ferðin og ferðatilhögun borin undir kynnt eða samþykkt í ríkisstjórn? Í þriðja lagi: Var greiddur allur kostnaður vegna ferðarinnar, fargjöld, uppihald og dagpeningar, og í því sambandi sérstaklega voru greiddir dagpeningar maka? Og í fjórða lagi: Var valin ódýr ferðatilhögun og gisting eða leitað leiða til þess og hver er heildarkostnaður skattgreiðenda við þessa ferð?