135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

síðari för menntamálaráðherra á Ólympíuleikana.

[13:49]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Það er nákvæmlega þessi málflutningur að ýja að einhverju, að segja eitthvað í hálfkveðnum vísum eða eitthvað annað. Hv. þingmaður sagði í upphafi máls síns að fjórir aðilar hefðu farið á vegum ráðuneytisins í seinni ferðina. Það er alrangt. Og ég bið hv. þingmenn og þá sem vilja kynna sér þetta mál betur að gera það.

Heildarkostnaður við þessar ferðir var um 5 millj. með þessari seinni ferð sem er undir. Enginn hefur gagnrýnt fyrri ferðina. Seinni ferðin liggur alveg skýrt fyrir. Þannig að það er alltaf verið að ýja að einhverju með annarlegum hætti.

Ég vil líka segja það og það hefur komið alveg skýrt fram, m.a. af hálfu strákanna okkar, af hálfu forustumanna ÍSÍ og Handknattleikssambandsins að þeir töldu mikilvægt að bæði forsetinn og ábyrgðarmaður íþróttamála í landinu væru á staðnum. Og mér finnst það sérstakt ef það er málflutningur Frjálslynda flokksins að íþróttamálaráðherra eigi ekki að vera viðstaddur mikilvægasta íþróttaviðburð landsins í sögunni fyrr og vonandi ekki síðar en alla vega fyrr. (Forseti hringir.) Það eru sérstök skilaboð til íþróttahreyfingarinnar.