135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

frumvörp um skipulagsmál og mannvirki.

[13:53]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að það er beðið með óþreyju eftir lagabótum og umbótum á sviði skipulagsmála og mannvirkjamála hér á landi, mjög margir bíða með óþreyju eftir því og hafa gert það lengi.

En hv. þingmaður ætti kannski að þekkja sögu Framsóknarflokksins aðeins betur eða kynna sér hana alla vega og kynna sér forsögu þessara mála af því að það var hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, sem hóf þessa vinnu. Hún hélt áfram í tíð hæstv. umhverfisráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur og enn áfram í tíð hæstv. umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz sem lagði þessi þrjú frumvörp fram í fyrsta sinnið. Þegar ég tók við í umhverfisráðuneytinu lagðist ég yfir það hvort þetta væru mál sem þyrfti og ég ætti að endurflytja. Eftir að hafa farið yfir málin ákvað ég að gera það af því að þau eru vel unnin og þau eru til mikilla bóta fyrir skipulagsmál og löggjöfina í landinu hvað það varðar, fyrir réttindi almennings, fyrir öryggi við nýbyggingar o.s.frv. Þess vegna ber nýrra við að nú skuli Framsóknarflokkurinn afneita tveimur fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherrum sínum með þeim hætti sem hv. þingmaður gerir hér.