135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

framlög til menntastofnana.

[13:59]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir að vekja athygli á þessum merkilegu tölum sem koma frá OECD í ritinu Education at a Glance. Ég vil líka vekja athygli á því að þetta eru tölur fyrir árið 2005. Við erum á réttri leið, það er alveg ljóst, við erum á réttri leið með því að auka markvisst fjárfestingu okkar í menntun, rannsóknum, vísindum og nýsköpun. Þar erum við að gera rétta hluti og ég held að þetta skipti okkur miklu máli núna til lengri tíma litið þegar við stöndum frammi fyrir ákveðnu umróti í efnahagsmálum að hafa einmitt fjárfest í grunnstoðum í okkar samfélagi.

Ég vil líka benda á að eftir 2005 höfum við verið að auka enn frekar framleiðni okkar til háskólamála, það er hægt að nefna rannsóknarsamninginn við Háskóla Íslands, aukin framlög til annarra menntastofnana eins og Háskólans í Reykjavík, fyrir norðan og svo má lengi upp telja. Við eigum líka að nota þetta sem ákveðinn vegvísi, ákveðinn leiðarvísi því að margt sem þarna kemur fram er ekkert hafið yfir gagnrýni. Ég tel að við verðum að fara markvissara í það og m.a. munu frumvörpin sem við samþykktum síðastliðið vor og eru nú orðin að lögum stuðla að því að við munum fara í það að auka enn frekar gæðamálin og gæðaeftirlitið með okkar skólastarfi. Það má því í rauninni segja: Já, við ætlum okkur að nýta þessar tölur til að efla skólastarfið enn frekar. Við erum búin að samþykkja ákveðinn ramma um ákveðna stefnu til lengri tíma litið en við erum m.a. með menntaþingi sem er núna á föstudaginn, menntaþing 12. september, og ég vil hvetja alla þingmenn til þess að mæta þangað, að marka brautina í samvinnu við skólaumhverfið, í samvinnu við kennara, nemendur, foreldra og þá sem munu sækja það þing.

Síðan er hitt að það hefur ekki verið mælt hvaða þýðingu þessar auknu fjárfestingar hafa almennt fyrir efnahagslífið. Það eru ýmsar leiðir til þess færar að mati hagfræðinga en menn eru ekki sammála um það. Ég er hins vegar sannfærð um að með því að efla og auka enn frekar fjárfestingu í menntun munum við stuðla að enn frekari tækifærum fyrir fólkið okkar í landinu til að velja hvaða leiðir það vill síðan fara í lífinu.