135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[14:09]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara fagna sérstaklega þessari breytingartillögu og vekja athygli á henni af tvennum ástæðum. Annars vegar vegna þess að greinin er tátólógía, hún er óþörf, hún segir sjálfsagðan hlut, þ.e. að um þátttöku íslenska stjórnvalda í friðargæsluverkefnum fari samkvæmt ákvæðum laga um friðargæsluna. Nema hvað?

Hin ástæðan og aðalástæðan er sú að þetta atriði á ekkert erindi inn í þetta frumvarp eða lög um þróunarsamvinnu. Ég kýs að líta svo á að með því að Alþingi víki þessu ákvæði nú út úr frumvarpinu sé það að undirstrika vilja sinn til þess að þessir málaflokkar séu aðskildir og þeim sé ekki blandað saman. Fyrir því hef ég lengi barist þannig að ég fagna því sérstaklega að frumvarpinu verði breytt á þennan veg.