135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:19]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta heilbrigðisnefndar um frumvarp til laga um sjúkratryggingar en málinu var vísað til nefndar að lokinni 2. umr. Hefur hún fjallað um það á ný og fengið á sinn fund aðila sem tilgreindir eru í nefndarálitinu. Nefndinni bárust einnig umsagnir um málið frá þeim aðilum sem jafnframt eru tilgreindir í nefndarálitinu.

Á fundum sínum ræddi nefndin um það ákvæði frumvarpsins þar sem Tryggingastofnun ríkisins er falið að annast reikningshald og daglega afgreiðslu slysatrygginga í umboði heilbrigðisráðherra þar til ný lög um slysatryggingar taka gildi, sbr. ákvæði a-liðar 12. tölul. 57. gr., en fram kom að vinna við gerð frumvarps til laga um slysatryggingar hefur dregist og mun taka lengri tíma en áætlað var. Þá kom einnig fram að slysatryggingar væru eðlislíkar sjúkratryggingum og hafa verið á sama sviði innan Tryggingastofnunar ríkisins sem samkvæmt frumvarpinu færist til sjúkratryggingastofnunar. Telur meiri hlutinn því við nánari athugun heppilegt að leggja til breytingar á frumvarpinu í þá veru að slysatryggingar færist einnig undir sjúkratryggingastofnunina enda einungis tæknileg útfærsla sem felur ekki í sér neinar efnislegar breytingar á réttindum eða hagsmunum einstaklinga.

Meiri hlutinn leggur einnig til smávægilega efnislega breytingu á 57. gr. frumvarpsins sem varðar lög um almannatryggingar og samræmist þeirri breytingu sem meiri hluti nefndarinnar lagði til við 2. umr. frumvarpsins síðasta vor. Meiri hlutinn leggur til að í stað þess að þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem ábyrgð bera á vörslu sjúkraskráa sé skylt að veita læknum, eða eftir atvikum tannlæknum, Tryggingastofnunar ríkisins, eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunarinnar, þær upplýsingar sem stofnununum eru nauðsynlegar til ákvörðunar um greiðslu bóta, endurgreiðslu reikninga og vegna eftirlitshlutverks stofnananna, sem og að skoða þann hluta sjúkraskrár sem reikningsgerð á hendur stofnununum er byggð á, verði skylt að veita læknum og hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum þær upplýsingar sem stofnununum eru nauðsynlegar — og áherslan er á hlutaðeigandi heilbrigðisstarfsmönnum en ekki útvíkkað frá tannlæknum.

Í nefndaráliti meiri hluta heilbrigðisnefndar við 2. umr. um frumvarpið var lögð áhersla á mikilvægi þess að stofnunin hefði virkt eftirlit með gæðum og árangri starfsemi þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum við sjúkratryggingastofnunina. Í því skyni lagði meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu þar sem skerpt var á þessu hlutverki hinnar nýju stofnunar með því að í stað þess að stofnunin geti ákveðið að setja í samninga ákvæði sem ætlað er að stuðla að gæðum og árangri þjónustunnar, m.a. um gæðastjórnunarkerfi og vottun þeirra, faggildingu, árangursmælingar og upplýsinga- og skýrslugjöf, sé kveðið skýrar á um þetta eftirlit, þ.e. að stofnunin skuli setja slík ákvæði í þessa samninga. Í ferð heilbrigðisnefndar til Stokkhólms, sem farin var seinni hluta ágústmánaðar til að kynnast framkvæmd sjúkratrygginga í Svíþjóð, varð nefndinni enn frekar ljóst mikilvægi þessa þáttar í starfsemi stofnunarinnar. Því vill meiri hlutinn styrkja þennan þátt í starfsemi hinnar nýju stofnunar enn frekar og leggur til breytingu á 5. gr. frumvarpsins um hlutverk stofnunarinnar. Leggur meiri hlutinn til að nýjum tölulið verði skotið inn í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins á eftir 4. tölul., svohljóðandi: 5. Að hafa eftirlit með gæðum og árangri starfsemi þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum, sbr. IV. kafla. Þannig verði skilgreint hlutverk stofnunarinnar samkvæmt 5. gr. frumvarpsins ekki aðeins bundið við að annast framkvæmd sjúkratrygginga og sjá um samninga um kaup og endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu, auk annarra verkefna sem stofnuninni er falið, heldur verði einnig skilgreint hlutverk stofnunarinnar að setja gæða- og árangursviðmið um þá þjónustu sem keypt er og hafa eftirlit með þeim viðmiðum í starfsemi þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu samkvæmt samningum við sjúkratryggingastofnunina. Þess má geta að þegar er gert ráð fyrir að um 5–7 manns verði ráðnir til slíkra starfa hjá hinni nýju stofnun samkvæmt þeim áætlunum um mannafla sem nú liggja fyrir.

Í nefndinni var nokkuð rætt um reglugerðarheimild til handa ráðherra, sem er að finna í 55. gr. frumvarpsins. Skilningur meiri hluta nefndarinnar er sá að sú reglugerðarheimild veiti ráðherra einungis sjálfstæða heimild í þeim tilvikum þegar til stendur að auka greiðsluþátttöku sjúkratryggingastofnunarinnar frá því sem gert er ráð fyrir í öðrum ákvæðum frumvarpsins, en ekki til að draga úr þeirri greiðsluþátttöku sem þar er kveðið á um. Þá er ráðherra veitt heimild til að birta í formi íslenskrar reglugerðar breytingar sem gerðar eru á almannatryggingareglum Evrópusambandsins og Íslandi ber að leiða í lög í ljósi EES-samningsins. Þessi heimild er fyrst og fremst hugsuð til að auka réttaröryggi íslenskra borgara og tryggja að heildarákvæði um réttindi í almannatryggingum liggi fyrir í formi íslenskrar reglugerðar. Ákvæðið veitir hins vegar ráðherra að sjálfsögðu ekki sjálfstæða heimild til að setja í reglugerð breytingar sem stafa frá Evrópusambandinu og ekki rúmast innan annarra efnisákvæða laganna.

Nefndin ræddi á fundum sínum nánar um markmið og gildissvið samkeppnislaga gagnvart heilbrigðislögum en í áliti meiri hlutans síðasta vor var áréttaður sá skilningur að þegar ráðherra og sjúkratryggingastofnunin forgangsraða verkefnum innan opinberu heilbrigðisþjónustunnar eða ákveða að fela opinberum aðilum að sinna ákveðinni þjónustu með vísan til þeirra sjónarmiða sem greind eru sem lögmæt viðmið í 40. gr. þá varðar það ekki við samkeppnislög. Þar var m.a. tekið dæmi um að einkaaðilar gætu ekki með vísan til samkeppnislaga krafist að fá tiltekna þjónustu boðna út ef úthýsing á þjónustunni gerir sjúkratryggingastofnuninni ókleift að tryggja opinberum heilbrigðisstofnunum fullnægjandi fjölda verkefna til að tryggja fullnægjandi viðhald þekkingar og fjölbreytni út frá öryggis- og kennsluhlutverki stofnananna, jafnvel þótt þeir geti boðið lægra verð. Í áliti meiri hlutans síðasta vor var á hinn bóginn einnig áréttað mikilvægi þess að við val sjúkratryggingastofnunarinnar á viðsemjendum, þegar ákveðið hefur verið að leita verðtilboða frá veitendum heilbrigðisþjónustu, verði höfð hliðsjón af markmiðum samkeppnislaga þannig að gætt sé jafnræðis og byggt á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum við val á viðsemjendum. Í því tilliti var í nefndaráliti meiri hlutans vísað sérstaklega í 3. mgr. 40. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn telur í því sambandi mikilvægt að leggja áherslu á þann almenna skilning að þessi sjónarmið takmarkist ekki við þessa tilteknu málsgrein heldur að þau eigi við 40. gr. sem og frumvarpið í heild sinni þar sem við á.

Fyrir nefndinni voru rædd þau ákvæði 12. tölul. 59. gr. um nýtt ákvæði til bráðabirgða er varða stöðu og rétt starfsmanna þegar verkefni flytjast til sveitarfélaga vegna tímabundinna samninga ríkisins um rekstur heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, sbr. 28. gr. Þau sjónarmið komu fram hjá Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga að í slíkum tilvikum gilda lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, nr. 72/2002, og að í ákvæðinu gæti falist skerðing á stjórnunarrétti sveitarfélagsins sem vinnuveitanda og gæti jafnvel gengið þvert á ákvæði laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, nr. 96/2000, þar sem kjör starfsmanna í sambærilegum störfum réðust þá af mismunandi kjarasamningum, annars vegar ríkis og hins vegar viðkomandi sveitarfélags. Meiri hlutinn telur hins vegar að þetta ákvæði skapi aukinn rétt starfsmanna til viðbótar við þann rétt sem þeim er tryggður í lögum um aðilaskipti að fyrirtækjum og leggur áherslu á að hugsanlegar breytingar á þessu ákvæði skuli unnar í samráði við hagsmunaaðila.

Loks leggur meiri hlutinn til að b-liður 2. tölul. 64. gr. falli brott vegna breytinga sem orðið hafa á lögum um landlækni þannig að 5. málsl. 5. mgr. 6. gr. þeirra laga standi óbreyttur.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á gildistökuákvæðum frumvarpsins svo að lögin öðlist gildi 1. október 2008.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Guðjón Arnar Kristjánsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Undir álitið skrifa hv . þingmenn Ásta Möller formaður, framsögumaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, Pétur H. Blöndal, Árni Páll Árnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ellert B. Schram.

Ljóst er að umræða um sjúkratryggingafrumvarpið hefur farið fram síðasta vor og aftur nú í haust og einnig liggur fyrir hvert markmiðið er með nýjum sjúkratryggingalögum. Markmiðið er að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði og jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Markmið frumvarpsins er jafnframt að stuðla að rekstrar- og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu og hámarksgæðum hennar og styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda þessarar þjónustu og kostnaðargreina hana.

Grunnatriði frumvarpsins, þ.e. kostnaðargreining í heilbrigðisþjónustu, hefur verið til umræðu hér á landi árum saman og m.a. verið í stjórnarsáttmála ríkisstjórna allt frá árinu 1995. Margir aðilar, bæði fagaðilar og stjórnendur heilbrigðisstofnana, hafa hvatt til þess að fara þessa leið og margoft sent áskoranir í þá veru bæði til fjárlaganefndar og heilbrigðisyfirvalda og til fjármálaráðuneytisins.

Mikil vinna hefur farið fram hér á landi varðandi hið svokallaða DRG-kerfi sem er alþjóðlega viðurkennt kerfi sem er lagt til grundvallar kostnaðargreiningu í þjónustu heilbrigðisstofnana, sérstaklega sjúkrahúsa og ýmsar alþjóðlegar stofnanir eins og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa hvatt þjóðfélög til þess að taka upp kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu í þeim tilgangi að bæta nýtingu fjármagns, auka hagkvæmni og gagnsæi útgjalda til heilbrigðisþjónustu og byggir þar á viðamiklum rannsóknum í þá veru. OECD sagði í skýrslu sinni til íslenskra stjórnvalda fyrr á þessu ári að nota ætti kostnaðargreiningu sem grundvöll í fjármögnun í heilbrigðisþjónustu og um þá skýrslu fór fram ítarleg umræða á vorþinginu.

Tekið var ákveðið skref í heilbrigðisþjónustulögum sem samþykkt voru vorið 2007 þar sem settur var inn nýr kafli sem ekki var áður í heilbrigðisþjónustulögum. Það var kafli um samninga um heilbrigðisþjónustu og þar segir m.a. í 29. gr. heilbrigðisþjónustulaga, með leyfi forseta:

„Samningar um heilbrigðisþjónustu skulu gerðir í samræmi við stefnumörkun skv. 3. gr., m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni og gæði þjónustunnar og aðgengi að henni. Samningarnir skulu m.a. kveða á um magn og tegund þjónustu, hvar hún skuli veitt og af hverjum.“

Unnið var að þessu frumvarpi í þrjú ár og í nefndinni sem vann að því að móta frumvarpið voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, m.a. Vinstri grænna, og þegar það var afgreitt úr nefndinni hafði enginn stjórnmálaflokkur fyrirvara í þessa veru varðandi kaup á heilbrigðisþjónustu, ekki heldur Vinstri grænir. Þessi grein sem sett var inn í heilbrigðisþjónustulögin vorið 2007 var samþykkt samhljóða af öllum þingmönnum sem voru viðstaddir við atkvæðagreiðsluna.

Ég hef rakið hér í nokkrum orðum hvernig umræðan hefur farið fram á síðustu árum varðandi þessa breytingu og m.a. nefndi ég reyndar síðastliðið vor að Framsóknarflokkurinn hefði sett nefnd á laggirnar árið 2000 undir stjórn Davíðs H. Gunnarssonar til að vinna að þessari skipulagsbreytingu um kaupendur og seljendur í heilbrigðisþjónustu. Sú nefnd vann ágætt starf og m.a. spurði ég þáverandi heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, á árinu 2004 um störf þessarar nefndar. Þá kom fram að nefndin væri að störfum og væri m.a. að horfa á þá vinnu sem hefði farið fram á Landspítala – háskólasjúkrahúsi varðandi DRG sem væri síðan skoðað í framhaldi af því. Það má líka nefna og það kom fram í umræðunni síðastliðið vor að hin svokallaða Jónínunefnd lagði sterklega til að þessari aðferðafræði yrði beitt. Því er ekki hægt að taka undir það sem komið hefur fram hjá þingflokksformanni Vinstri grænna, hv. þm. Ögmundi Jónassyni, sem fer mikinn í blöðunum þessa dagana og finnst umræða um þetta mál hafa verið af skornum skammti. Ég spyr þess vegna í því sambandi: Hvar hefur þingflokksformaðurinn verið síðustu ár? Hefur hann ekki fylgst með þeirri umræðu sem hefur farið fram? Er hann ekki með á nótunum? Hann kvartar jafnframt yfir því að heilbrigðisnefndin hafi ekki gefið sér nægan tíma til að fjalla um frumvarpið. Það er einnig alrangt. Það fór mikil vinna fram í vor við frumvarpið, 1. og 2. umr. um málið var tekin. Við fengum fjölda umsagnaraðila til fundar við okkur í heilbrigðisnefnd og góða umræðu og síðan var tekin ákvörðun um að fresta frumvarpinu til haustsins. Í ágústmánuði fór svo hv. heilbrigðisnefnd til Svíþjóðar til að kynna sér framkvæmd sjúkratrygginga en þar var byrjað að vinna að kostnaðargreiningu með sams konar markmið í huga í kringum 1990 og Svíar hafa mikla reynslu í þessum efnum. Þetta var mikil vinna, 10 tímar á dag í tvo daga, og ef eitthvað var þá var kvartað undan vinnuálagi en þetta var alla vega mjög góð ferð og mjög upplýsandi, enda hittum við þar færustu sérfræðinga á þessu sviði, aðila sem höfðu staðið að þessum breytingum á sínum tíma, sérfræðingar, embættismenn og stjórnmálamenn og fólk ef ég má sletta, með leyfi forseta, sem er með virkilega „hands on“ þekkingu á þessari vinnu.

Hv. heilbrigðisnefnd kom saman til fundar á þriðjudaginn var, hélt þá fund með umsagnaraðilum, fékk á þriðja tug aðila á fund nefndarinnar. Hún hélt síðan aftur fund á miðvikudag og fimmtudag og það var ljóst þegar á þriðjudeginum að málið yrði ekki tekið til umræðu í þeirri viku heldur yrði það tekið upp hér í dag. Heilbrigðisnefnd gafst því nægur tími til að fjalla um málið og jafnvel þótt boðið væri sérstaklega upp á það að hafa fleiri fundi óskuðu nefndarmenn ekki eftir því sem við hefðum þó hæglega getað gert ef þörf hefði krafið, bæði á föstudag og þess vegna á laugardag, í gærmorgun á nefndadegi og í morgun. Niðurstaða mín var sú að þar sem nefndarmenn óskuðu ekki eftir að halda frekari fundi að málið væri fullrætt innan nefndarinnar. Ég vísa því alfarið á bug að málið hafi ekki verið fullrætt á vettvangi nefndarinnar.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur hins vegar sagt að hann hafi sjálfur og hans þingflokkur kynnt sér málið til hlítar í sumar. Það er vel, mjög gott, en jafnframt bendir hann á að til grundvallar leggi hann framsögu sem virtur vísindamaður, Svíinn Göran Dahlgren, hélt fyrir fjórum árum og síðan erindi sem annar fræðimaður hélt síðastliðið vor. Ef þetta er vinnan sem Vinstri grænir lögðu í í sumar þá er það sama vinna og við lögðum í síðastliðið vor þannig að ég tel ekki að hægt sé að ásaka nefndina fyrir að hafa slegið slöku við.

Á annað hundrað umsagnaraðilar fengu tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við nefndina og að einum undanskildum hafa þeir ekki gert neinar athugasemdir varðandi grundvallarþætti í þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér, þ.e. kostnaðargreiningu á þjónustunni og að fé fylgi sjúklingi. Þvert á móti má segja að þeirri breytingu var almennt fagnað af umsagnaraðilum og þær athugasemdir sem komu frá þeim snertu aðra þætti. Undantekningin er hins vegar BSRB sem er mjög mikið umhugsunarefni einmitt vegna tengsla formanns BSRB við Vinstri græna. Enda má líka segja að þeir aðilar sem hafa kynnt sér frumvarpið og tekið afstöðu til þess og fagnað því eigi í rauninni mjög erfitt með annað en taka undir þau markmið sem við erum að setja upp með frumvarpinu, þ.e. að tryggja sjúkratryggðum aðstoð til verndar heilbrigði, að tryggða jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, að stuðla að rekstri og þjóðhagslegri hagkvæmni heilbrigðisþjónustu, að stuðla að hámarksgæðum heilbrigðisþjónustu, að kostnaðargreina hana og styrkja hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu. Ég mundi telja að þessi markmið séu góð og gild og mjög eftirsóknarverð.

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar felur í sér grundvallarbreytingu varðandi fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, sem eins og ég tók fram áðan hefur mikið verið kallað eftir, þannig að farið er frá föstum fjárlögum í fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar í blandaða fjármögnun þar sem fjármagnið skiptist í grunnupphæð, greiðslu fyrir umsamda þjónustu og jafnvel árangurs- eða gæðatengdar greiðslur. Það kom fram í skýrslu, og ég hef reyndar nefnt það áður, sem gefin var út af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrir nokkrum árum að á þeim tíma voru það einungis Albanía og Ísland sem fjármögnuðu heilbrigðisþjónustu með föstum fjárlögum. Nú veit ég ekki hver staðan er í Albaníu en ég veit alla vega að það er löngu kominn tími til að breyta því hér á landi.

Eins og fram hefur komið fór hv. heilbrigðisnefnd Alþingis til Stokkhólms síðsumars til að kynna sér framkvæmd sjúkratrygginga í Svíþjóð en þar er heilbrigðisþjónustan skipulögð með nokkuð öðrum hætti stjórnsýslulega en hér á landi, þ.e. hún er fjármögnuð og skipulögð af fylkjunum sem eru stjórnsýslustig milli ríkis og sveitarfélaga en þau hafa sjálfræði í skipulagningu þjónustunnar. Fylkin hafa langa reynslu af kostnaðargreiningu í heilbrigðiskerfinu og hafa mörg hver tekið hana upp að einhverju eða öllu leyti. Þetta skref var fyrst tekið í kringum 1990 í Stokkhólmi og Dölunum, ef ég man rétt, og er það samdóma álit þeirra sem við ræddum við úti í Svíþjóð að þetta hafi verið mikið framfaraskref og til góðs.

Það sem vakti athygli mína í þessari ferð var að í Stokkhólmi, þar sem tekið var stórt skref í kringum 1990, tók undirbúningurinn að breytingunni mjög skamman tíma eða sex mánuði. Svíarnir vöruðu okkur einmitt við því að gera slíka breytingu með þeim hraða sem þeir gerðu því að þeir þurftu að gera ýmsar breytingar eftir á sem þeir hefðu betur hugsað áður en af stað var farið, en sex mánuðir eru náttúrlega mun styttri tími en við ætlum okkur hér að hafa þetta til umfjöllunar.

Það vakti líka athygli mína að það kom fram frá mjög mörgum aðilum og öllum sem spurðir voru eftir því, að það var mikil samstaða meðal stjórnmálaflokka að taka upp þessar vinnuaðferðir og það að allir aðilar, stjórnmálamenn, stjórnendur og fagaðilar, telja að kostnaðargreining geti tryggt betur hagkvæmni í rekstri stofnana, gagnsæi í þjónustu og fjárveitingum og aukna gæði í þjónustu. Því hefur verið haldið fram að aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu, sem sumir leggja að jöfnu við einkavæðingu sem er allt annar hlutur, sé ástæða þess að farið er í kostnaðargreiningu í heilbrigðisþjónustu. Það er rangt eins og hv. heilbrigðisnefnd komst að í ferð sinni til Svíþjóðar og vissi reyndar áður. Þar horfðu stjórnmálamenn fyrst og fremst á aukna hagkvæmni í þjónustu, að ná stjórn á veitendahlið þjónustunnar með það að markmiði að veita betri þjónustu með tilliti til gæða, öryggis og aðgengi að þjónustunni. Þeir töldu eignarhaldið ekki skipta máli eða eins og einn stjórnmálamaðurinn sem við ræddum við sagði, að það sem skipti þá meira máli væri langtímasamningur um þjónustu heldur en hvert eignarhaldið væri.

Nýtt kerfi mun leiða til gerbreyttrar hugsunar í heilbrigðisþjónustu, fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, þar sem í stað þess að horft sé á sjúkling sem leggst inn á stofnun sem kostnaðaraukningu fyrir stofnunina er litið á hann sem tekjulind þar sem umsamin greiðsla fyrir umsamda meðferð felur í sér greiðslu til viðkomandi stofnunar. Þetta ætti að tryggja sjúklingnum betra aðgengi að þjónustunni og hann fái þá meðferð sem hann þarf á að halda, að þjónustan taki mið af þörf. Í dag er það svo að dregið er úr þjónustu og deildum lokað til að stofnunin haldi sér innan fjárhagsramma en í nýju kerfi getur hins vegar lokuð deild á heilbrigðisstofnun jafngilt töpuðum tekjum fyrir stofnunina.

Það má kannski segja að þessi lýsing leiði til spurningarinnar: Mun þetta ekki leiða til aukins kostnaðar í kerfinu? Það gerðist í Svíþjóð. Það kom greinilega fram að kerfisbreytingin leiddi til aukins kostnaðar og framleiðsluaukningin var slík að með sama fólki sópaðist fé inn á heilbrigðisstofnanir og kostnaðaraukningin varð gríðarleg en um leið hurfu biðlistarnir á augabragði. En með breyttri samsetningu á greiðslum, því að áður hafði verið fjármagnað 100% með DRG, gátu menn náð kostnaði niður á ný þar sem það var betur skilgreint hvaða þjónusta var keypt af hverjum þjónustuaðila, það var sem sagt hægt að snúa þróuninni við án þess að framleiðslan minnkaði um of. Eða eins og einn viðmælandi okkar í Svíþjóð sagði: „Kostnaðarvitund leiðir til skynsamlegri nýtingar fjármuna í heilbrigðisþjónustu.“

Því hefur líka verið haldið fram að almennt hafi þetta leitt til mikillar kostnaðaraukningar í Svíþjóð þrátt fyrir það sem ég sagði á undan en það má benda á að á síðustu árum og með breyttu kerfi hefur Svíum tekist að hemja kostnaðaraukninguna í heilbrigðisþjónustu. Á tímabilinu 1990–2002 jókst kostnaður við heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð sem hluti af vergri landsframleiðslu úr 8,4% í 9,2% en á Íslandi úr 8 í 10% af vergri landsframleiðslu þrátt fyrir að aldursskiptingin sé önnur. Svíar eru mun eldri en við, þar munar töluverðu, um 17% Svía eru 67 ára og eldri en 12% hér á landi. Þekkt er að aukinn fjöldi aldraðra þýðir aukin heilbrigðisútgjöld en Svíum hefur tekist, m.a. með þessari aðferð, að hemja aukningu heilbrigðisútgjalda.

Virðulegi forseti. Heilbrigðisnefnd átti fund með Birgi Jakobssyni lækni, sem er forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, en hann er íslenskur og hefur átt farsælan feril sem læknir og stjórnandi í sænska heilbrigðiskerfinu og m.a. kynnt sér sem stjórnandi kaupenda- og seljendamódelið sem frumvarpið sem hér er til umfjöllunar gengur út á. Það var eftirtektarvert þegar hann sagði okkur alþingismönnum að innleiðing kaupenda- og seljendamódelsins hefði orðið heilbrigðisþjónustunni til bóta og leitt til þess að tekið hefði verið af meiri festu á þáttum eins og biðlistum, gæði þjónustu og öryggi sjúklinga en áður þekktist. Jafnframt hefði þetta kerfi leitt til aukins gagnsæis í þjónustu og kostnaðarmyndun í þjónustunni sem er af hinu góða og benti til samanburðar á að áður en kostnaðargreining kom til var kostnaður og það sem hið opinbera var að fá fyrir peninginn sem lagður var til heilbrigðisþjónustu af opinberu fé allur í þoku. Ég held að það lýsi dálítið ástandinu hjá okkur í dag. Við erum með föst fjárlög til stofnana þar sem horft er á hvað stofnunin fékk á síðasta ári, í besta falli framreiknað eftir vísitölu og hugsanlega aukin verkefni, og þannig horft til þess hvað stofnunin á að fá í ár án þess að vita nákvæmlega hvað út úr því fæst. Jafnframt lagði hann áherslu á það, eins og aðrir viðmælendur okkar, að mikil sátt væri um kerfið.

Í þessu ljósi og því sem ég hef sagt á undan er hik Framsóknarflokksins og andstaða VG gegn frumvarpinu óskiljanleg. Ég hafði ekki séð nefndarálit hvorki 1. né 2. minni hluta heilbrigðisnefndar en ég skoðaði hins vegar nefndarálit frá því í vor og þar segir hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir við 2. umr. í nefndaráliti sínu, með leyfi forseta: „Nái frumvarpið fram að ganga má ætla að það leiði til einkavæðingar heilbrigðisþjónustunnar.“ Jafnframt fullyrðir hún að kostnaður við heilbrigðisþjónustu sem rekin er af einkaaðilum sé kostnaðarsamari og að bresk rannsókn bendi til að ef efnt yrði til samkeppni um heilbrigðisþjónustu á markaði geti það, með leyfi forseta, bein tilvitnun: „aukið dánartíðni sjúklinga vegna aðgerða.“ Þetta er náttúrlega töluvert mikil fullyrðing.

Vinstri grænir fullyrða í nefndaráliti sínu við 2. umr.: „Frumvarpið greiðir götu markaðsvæðingar innan heilbrigðisþjónustunnar og gagnstætt því sem fullyrt er gætu þessar lagabreytingar orðið þjóðhagslega óhagkvæmar.“

Svo mörg voru þau orð. En hver er reynsla Svía? Hvaða svör fékk íslenska heilbrigðisnefndin þegar þetta var borið undir sérfræðinga og stjórnmálamenn í ferð nefndarinnar til Stokkhólms í fyrri viku? Mun kostnaðargreining í heilbrigðisþjónustu leiða til aukinnar einkavæðingar þjónustunnar, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir heldur fram og vinstri grænir jafnframt líka? Svíar sögðu nei, þvert á móti hafa einkaaðilar haft horn í síðu kostnaðargreiningar í heilbrigðisþjónustu því að það kallar á gagnsæi í verðlagningu á því hvað það kostar raunverulega að veita þjónustuna, hvað verið er að borga fyrir. Kostnaðargreining er því ekki alltaf til hagsbóta fyrir seljendur það allt er uppi á borðinu og því til viðbótar má líka segja að eftir því sem við styrkjum kaupendahliðina, þ.e. Tryggingastofnun í þessu tilviki, því betur eru menn í stakk búnir til þess að semja við þá sem eru samningsaðilar þeirra. Og það er ekki eins og við séum að sjá þetta kerfi alveg í fyrsta sinn því að um 30% af heilbrigðisþjónustunni eru í einkarekstri, eru aðilar utan hins opinbera kerfis og við höfum langa reynslu af því að semja við sérfræðinga og ég er þeirrar skoðunar að þeir hafi oft snúið á Tryggingastofnun vegna yfirburðaþekkingar sinnar á því sem samið er um.

Er kostnaður við heilbrigðisþjónustu sem rekinn er af einkaaðilum kostnaðarsamari? Svíar sögðu nei. Stjórnmálamenn sem við hittum bentu á skýrslu sem þeir létu gera við viðskiptaháskóla í Stokkhólmi þar sem fram kom að þjónusta við einkaaðila í heilbrigðisþjónustu væri ekki dýrari fyrir samfélagið en sambærileg þjónusta sem keypt er af einkaaðilum. Til að fá hagnað af rekstrinum rækju þeir hins vegar oft þjónustuna með hagkvæmari hætti en opinberar stofnanir en kostnaður fyrir borgarana væri sá sami. Hér á landi hefur oft verið bent á hjúkrunarheimilið Sóltún sem dæmi um aukinn kostnað þar sem einkaaðili á í hlut. Ef svo er, og það má með vissum rökum segja að það sé dýrara, þá geta stjórnvöld alfarið tekið ábyrgðina á sig og ekki síst Framsóknarflokkurinn sem hélt um stjórnartaumana í heilbrigðisráðuneytinu þegar sá samningur var gerður. Á hinn bóginn benti ég á að upplýsingar sem komu fram í Morgunblaðinu fyrir einhverju síðan þar sem bent var á að einkareknu heilsugæslustöðvarnar tvær sem reknar eru á höfuðborgarsvæðinu væru best reknu og hagkvæmustu einingar innan heilsugæslunnar. Þar eru því ekki víti til að varast og þessu hélt jafnframt hæstv. heilbrigðisráðherra á sínum tíma, Jón Kristjánsson, fram í umræðu á þinginu.

Síðasta atriðið sem mig langaði að nefna varðar þá fullyrðingu að dánartíðni í meðferð aukist ef hún er veitt af einkaaðilum, eins og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir vill láta liggja að í nefndaráliti sínu frá því í vor. Spurningin er þá hvort það sé munur á gæðum þjónustu eftir því hvort veitendur eru opinberir aðilar eða einkaaðilar. Svíar sögðu nei og vísuðu í sömu skýrslu og ég nefndi áðan um samanburð á þjónustu einkaaðila og opinberra aðila í heilbrigðisþjónustu. Ef eitthvað er þá töldu þeir að aðgengi hjá einkaaðilum væri betra og tilkoma einkaaðila við hlið opinberra aðila í sams konar þjónustu leiði til enn betri þjónustu frá hinum opinbera aðila. Við getum jafnvel séð ákveðna samsvörun í þessu í íslenska menntakerfinu þar sem bæði á grunnskólastigi og æðri skólastigum hafa komið aðilar sem reka skóla í samkeppni við hina opinberu skóla og það er samdóma allra að það hafi aukið gæði menntunar. Með samningum um tiltekna heilbrigðisþjónustu eru settir gæðastaðlar um meðferð sem keypt er af heilbrigðisyfirvöldum fyrir hönd skjólstæðinga sinna og ef seljandi þjónustu uppfyllir ekki gæðin tapar hann á því fjárhagslega. Því til viðbótar má hann sæta gæðasamanburði við aðra aðila sem veita sams konar þjónustu. Með þessum skilyrðum má ljóst vera að það er ekki hægt að halda því fram (Forseti hringir.) að þjónusta einkaaðila sé lakari að gæðum. Í seinni hluta ræðu minnar mun ég svo taka fyrir fleiri þætti sem ég tel vert að ræða.