135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:51]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig háttaði til síðasta vor að tekin var ákvörðun um að fresta 3. umr. til haustsins. Jafnframt lá fyrir skipulag á haustfundum þingsins 1.–15. september og var ljóst að fyrri vikan yrði tekin í nefndarstarf. Það var mín skoðun að sú vika yrði notuð í þá fundi sem þurfti til að fara yfir frumvarpið.

Frumvarpið var sent aftur út til umsagnar 2. júní og frekari umsagnir bárust og jafnframt var það sent til þeirra umsagnaraðila sem þegar höfðu sent umsagnir þannig að þeir höfðu nægan tíma til að fara yfir það. Breytt var um skipulag á haustfundum og í stað þess að nefndarfundir væru fyrri vikuna var tekin ákvörðun um að hafa þingfundi. (Forseti hringir.) Í skipulagningu minni gerði ég ráð fyrir að nefndin hefði nægan tíma til að fjalla um þau ágreiningsatriði sem uppi voru.