135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrsta atriðið, um umræðuna sem hefur farið fram, vakti ég í ræðu minni áðan athygli á að umræðan hefur verið í gangi hér árum saman, það er ekki eins og hún sé að birtast fyrst núna. Hún hefur farið fram hér í þingsölum, hún hefur farið fram í samfélaginu, meðal fagfólks, meðal heilbrigðisstofnana, meðal stjórnmálamanna þannig að fólki er fullkunnugt um hvað málið snýst. Það snýst um að kostnaðargreina þjónustuna. Það snýst um að fá að vita hvað við erum að fá fyrir peninginn, það snýst um að auka öryggi sjúklinga og það snýst um aukið hagræði.

Varðandi spurninguna um Svíþjóð er það þannig að allir stjórnmálaflokkar eru sammála um þessar breytingar. Teknar hafa verið ákvarðanir í Stokkhólmi að leita samninga við einkaaðila um rekstur heilsugæslunnar. Í Noregi eru 90% af heilsugæslunni rekin af einkaaðilum og 100% í Danmörku þannig að Svíar eru á eftir ef eitthvað er.