135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:58]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. DRG er ekki eina greiðslukerfið sem notað er til grundvallar. Eins og hv. þingmaður veit er svokallað RAI-kerfi, raunverulegur aðbúnaður íbúa, t.d. notað í öldrunarþjónustu, en það er bæði kostnaðargreining og gæðavísir. Innan heilsugæslunnar eru önnur kerfi notuð og í endurhæfingu — það er ekkert eitt kerfi sem er notað heldur eru fleiri valin. (Gripið fram í.) Ef ég má fá orðið án frammíkalla þá er það þannig að DRG-kerfið hefur verið einna mest í umræðunni, ekki síst vegna þess að það mun eiga við um flest sjúkrahús landsins. Þau sjúkrahús sem eru einna lengst komin eru Landspítalinn, sem hefur lagt í gríðarlega mikla vinnu til að þróa þetta kerfi hér innan lands, m.a. í samstarfi við norræna samstarfsmenn, og jafnframt hefur Sjúkrahúsið á Akureyri, (Forseti hringir.) eins og það heitir núna, lagt í mikla vinnu í þessa veru.