135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[14:59]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta heilbrn. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. formaður heilbrigðisnefndar fór mikinn í ræðu sinni og nokkur asi var á henni. Það er ósköp skiljanlegt vegna þess að þetta er hennar hjartans mál sem hér er komið til lokaafgreiðslu. Ef ég skildi hana rétt — hún var það óðamála að ekki var alltaf hægt að ná því sem hún sagði — sagði hún að hik væri á Framsóknarflokknum og það væri óskiljanlegt.

Ég held að hv. þingmaður hljóti fyrir löngu að hafa gert sér grein fyrir því að ágreiningur er á milli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki. Það er þess vegna sem hún stóð æðioft í þessum ræðustóli á síðasta kjörtímabili og kjörtímabilum þar á undan og spurði þáverandi heilbrigðisráðherra hvort þeir ætluðu ekki að fara að drífa sig í meiri einkarekstur og meiri einkavæðingu. Sú var ástæðan fyrir því að hún þurfti að spyrja að hún var ekki ánægð með frammistöðu framsóknarráðherranna í sambandi við það að einkavæða og einkareka heilbrigðiskerfið.

Þetta er nú svona (Forseti hringir.) og hv. formaður hlýtur að gera sér grein fyrir því að um ágreining er að ræða.