135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:48]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, auðvitað er rétt að nýta fjármagn vel. En það er hægt að gera á ýmsan hátt. Það er hægt að gera með útboðum, taka lægsta útboði en hvar segir að þjónustan sé sú sama, að það bitni ekki á kjörum starfsfólksins sem vinnur við þjónustuna eða gæðum þjónustunnar?

Treysti ég stjórnendum heilbrigðisstofnana? Sannarlega. En það verð ég að segja að bæði heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra, núverandi og fyrrverandi, hafa ekki treyst þeim. Þó svo að stjórnendur heilbrigðisstofnana hafi lagt raunsannar rekstraráætlanir fyrir fjárlagagerðina og það sé í raun og veru staðfest að það sé engin þjónusta eða annað en það sem er viðurkennt að sú stofnun eigi að veita þá hafa þeir ekki fengið fjármagn til að sinna þeirri þjónustu.

Ég treysti stjórnendum. Ég treysti líka stjórnendum til þess að standa undir nýmælum, nýbreytni, þróunarstarfi. Það er mikill kraftur í hverri stofnun — ef hún fengi að njóta sín. En þegar allur kraftur fer í að láta enda ná saman og það er ekki hægt að leyfa sér að vera með þróunarstarf eða aukastarfsfólk í því að sinna þróunarstarfi eða nýbreytni eða brydda upp á fjölbreytni er þessum stjórnendum náttúrlega sýnt vantraust. Fjölbreytninni á, samkvæmt frumvarpinu, að ná í rekstrarformum en ekki í mismunandi þjónustu og skapa samkeppni milli opinberra stofnana. Þá væri búið að koma henni á.

Hvar stendur að til standi að einkavæða? Það stendur ekki í frumvarpinu. Það stendur í yfirlýsingum. Það stóð í yfirlýsingu Geirs Haardes í Valhöll að það ætti að einkavæða. Það stendur í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Það á að auka einkarekstur (Forseti hringir.) o.s.frv.