135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[15:58]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa síðustu spurningu til mín. Hvað með biðlista eftir öldrunarþjónustunni? Hvað með samninginn við Grund um öldrunarþjónustu á Landakoti? Er ekki betra að eyða biðlistum? Vissulega. Hvernig hefði það verið ef öldrunarþjónustan á Landakoti hefði fengið það fjármagn til að reka þessar deildir ef heilbrigðisþjónustan og öldrunarþjónustan á Landakoti hefði fengið sömu dagpeninga, sömu greiðslur fyrir hvern sjúkling (Gripið fram í.) eins og Grund fékk? Þá hefði hún hugsanlega aldrei þurft að loka. Þá hefðu hugsanlega aldrei þurft að koma til biðlistar. Þetta er spurning um fjármagn til þeirra stofnana sem við höfum nú í rekstri. Þess vegna var gott að fá þessar spurningar.

Hvað varðar afstöðu okkar um að ekki megi semja við einn eða neinn. Við höfum ekki á móti því að stuðla að góðri öldrunarþjónustu eins og verið hefur hjá þeim sjálfseignarstofnunum sem hafa verið, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) þ.e. að það sé verklag hér (Forseti hringir.) án arðsemissjónarmiða. Grund fékk (Forseti hringir.) meira fjármagn en Landakot. (Gripið fram í: Nei.)