135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:28]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir það nefndarálit sem hún leggur hér fram. Mig langar engu að síður að leggja fram spurningu til hv. þingmanns.

Í 1. mgr. segir að þingmenn Framsóknarflokksins vilji ekki bera ábyrgð á þeim grundvallarbreytingum sem gerðar eru á heilbrigðisþjónustunni með því að samþykkja þetta frumvarp og ætli að sitja hjá. Í næstu málsgrein segir, með leyfi forseta:

„Engu að síður er lögð áhersla á að það fyrirkomulag sem tekið er upp getur verið vel nothæft við ákveðnar aðstæður og ekki ólíkt þeim hugmyndum sem voru komnar fram í stjórnartíð fyrrverandi ríkisstjórnar.“

Spurning mín til hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur er þessi: Eru þau lög sem Alþingi setur aðeins bær við ákveðnar aðstæður fyrir ákveðna flokka? Eru lög sem Alþingi setur ekki bær við ákveðnar aðstæður, þ.e. ef svo vill til að Sjálfstæðisflokkurinn fari með heilbrigðisráðuneytið?