135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:31]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur svarið. Það er ljóst að hennar niðurstaða er sú að Sjálfstæðisflokknum sé ekki treystandi fyrir heilbrigðisþjónustunni. Þá er það einfaldlega komið fram og þá eru lögin með þeim hætti að þau hentuðu betur við ákveðnar aðstæður ef einhver annar flokkur sæti með heilbrigðisráðuneytið.

Framsóknarflokkurinn hafði heilbrigðisráðuneytið árum saman í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og einkarekstrinum eða breyttu rekstrarformi var komið á í tíð Framsóknarflokksins. Þess vegna dettur mér enn í hug akkúrat núna að það er algjörlega ljóst, hæstv. forseti, að það skiptir máli hvort menn eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, þeir skipta um skoðun eftir því hvort þeir eru ráðherrar eða ekki ráðherrar og skipta um skoðun eftir því hvort þeir eru í stjórn eða ekki í stjórn. Þar er Framsóknarflokknum kannski gleggst lýst.