135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:48]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég saknaði þess í upplestri hv. þingmanns að hann las ekki upp umsögn ungra jafnaðarmanna um þetta frumvarp. Ég ætla að leyfa mér að gera það fyrir hans hönd og vandamanna. Ungir jafnaðarmenn hafa lýst í ályktun mikilli undrun yfir því að þingflokkur Samfylkingarinnar ætli að stuðla að því að þetta frumvarp verði samþykkt á yfirstandandi þingi.

Í ályktuninni segir að frumvarpið gangi í grundvallaratriðum gegn stefnu Samfylkingarinnar. Bragð er að þá barnið finnur, hv. þingmaður. Af hverju var ekki minnst á þessa hluti í annars langri lofræðu?

Mig langar líka til að spyrja hv. varaformann Samfylkingarinnar hvort hann sé samþykkur því og ánægður með það ákvæði frumvarpsins sem bannar að samið skuli við stéttarfélög fagaðila í heilbrigðisþjónustu, svo sem Ljósmæðrafélag Íslands, um heimaþjónustu við sængurkonur þegar þær koma heim af fæðingardeildum.