135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:49]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu sem laut að ályktun ungra jafnaðarmanna og ég er einfaldlega ósammála þeirri ályktun sem ungir jafnaðarmenn draga af þessu frumvarpi. Ég er sannfærður um og veit að þetta frumvarp fer ekki gegn stefnu Samfylkingarinnar. Við höfum á tveimur landsfundum farið í gegnum þessa umræðu og samþykkt frekar jákvæða nálgun á einkarekstri sem hefur alltaf verið með því skilyrði að við mismunum ekki eftir efnahag og það er svo niðurneglt í frumvarpið að það ætti að geta róað efasemdarmenn um það.

Sömuleiðis held ég að inntak ályktunarinnar og áhyggjur um að frumvarpið skerði hugsanlega réttindi sjúklinga séu einfaldlega misskilningur. Frumvarpið tekur sérstaklega fram að hér er ekki verið að skerða réttindi sjúklinga. Hér er sérstaklega vísað í lög um réttindi sjúklinga, hér er sérstaklega vísað í lög um heilbrigðisþjónustuna og komið í mörgum liðum inn á hver þau réttindi eru. Ég held því að hér sé ekki neitt til að hafa áhyggjur af, einkaaðilar munu ekki taka neinar ákvarðanir um réttindi sjúklinga. Þessir þættir munu lúta eftirliti bæði ráðuneytis, landlæknis og stofnunarinnar sjálfrar og það er auðvitað gríðarlega mikilvægt. Ég held að það sé framfaraskref hvað þetta varðar, að við fylgjumst betur með þeim einkarekstri sem þó er í gangi sem er allt að þriðjungur þjónustunnar.

Ég nefndi sem dæmi Sóltúnsmálið sem ég veit að hv. þingmaður hefur mikinn áhuga á. Ég er sannfærður um að slíkt mál hefði ekki komið upp ef þetta frumvarp hefði verið lög þegar sá samningur var gerður.

Svo að ég komi á síðustu sekúndunum inn á seinni spurninguna er ég mjög ánægður með það ákvæði frumvarpsins að ekki er lengur heimilt að semja heildstætt við fagfélög og stéttarfélög. Ég tel fullkomlega óeðlilegt að þessar stéttir hafi þá stöðu gagnvart hinu opinbera að geta sameinast í einum hópi og sett jafnvel hinu opinbera einhvers konar afarkosti. Það er óeðlileg staða. Markmið frumvarpsins er að styrkja ríkið sem kaupanda og við gerum það ekki ef við höfum (Forseti hringir.) það opið að t.d. allir sérfræðilæknar í tilteknu fagi geti sameinast í samningum við ríkið.