135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:52]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður ætti ekki að ásaka aðra þingmenn eða flokka um kredduhugmyndir í ljósi þess hvernig málflutningur Vinstri grænna hefur verið (Gripið fram í.) þar sem trúarbrögðin eru í algjörum forgrunni.

Varðandi þá spurningu hvort mér finnist eðlilegt að fagfélög eða stéttarfélög séu samningsaðilarnir í svona samningum finnst mér alveg augljóst að ef markmið okkar er að styrkja kaupandastöðu ríkisins er ekki vænlegt ef t.d. allir hjartalæknar sameinast í einu félagi og reyna að semja við ríkið. Hvers konar stöðu munum við þá búa hinu opinbera hvað þetta varðar? Við sáum það þegar hjartalæknar náðu ekki samningum við hið opinbera, þá fóru þeir allir (Gripið fram í.)út af samningi, það var skelfileg staða. Það er ekki hollt því fólki sem við erum að reyna að setja hér í forgang, sjúklingunum, ef einhver stétt, sama hver stéttin er, getur sameinast í kröfum sínum gagnvart hinu opinbera í samningum.

Að því sögðu bendi ég líka á 8. gr., 43. gr. og 44. gr. — sérstaklega 8. greinina, þar er talað um að sjúkratryggingastofnuninni sé heimilt að skipa starfshópa og kalla til sérfræðinga til að (Forseti hringir.) aðstoða stofnunina. Það er aðkoma þessara fagfélaga og stéttarfélaga í vinnu sjúkratryggingastofnunar. (Forseti hringir.) En mér finnst óeðlilegt að við höfum þannig kerfi að einstakar stéttir geti sameinast í (Gripið fram í.) sínum samningum (Forseti hringir.) gagnvart hinu opinbera.