135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[16:56]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er auðvitað ekki að tala fyrir því að fagfélögum og stéttarfélögum verði bannað að stunda einhvers konar kjarabaráttu eða gera kjarasamninga. Það er bara allt annar hlutur sem við erum að ræða hér. Við erum að tala um það að þegar þessar einstöku stéttir koma saman og mynda eitt félag þegar samið er um kaup og sölu á þjónustu. Mér finnst hjartalæknamálið svo gott dæmi í því efni (Gripið fram í.)þar sem samningsstaðan var engin og sjúklingar þurftu að líða fyrir það. Þetta finnst mér grundvallaratriði og það kemur mér á óvart að þingflokkur Vinstri grænna taki þessa afstöðu gegn því að þjónustan batni einfaldlega og kaupandahlutverk ríkisins batni.

Varðandi aðra spurningu hv. þingmanns um að ef reynsla sýnir að einkarekstur sé dýrari en opinber rekstur er ég að sjálfsögðu ekkert að tala fyrir einkarekstri. Ég er enginn sérstakur talsmaður einkareksturs. Ég er bara að segja að ef einkareksturinn uppfyllir þessi skilyrði, um t.d. að kostnaðurinn aukist ekki, t.d. að ekki sé hægt að mismuna eftir efnahag, t.d. það að þjónusta við sjúklinga batni, af hverju megum við ekki fara þá leið?

Takið dæmi eins og augasteinsaðgerðirnar. Núna fá 800 manns þjónustu sem ekki fengju þjónustu ef vinstri grænir hefðu ráðið (Gripið fram í.) út af trúarbrögðum og kreddum þeirra. Vinstri grænir hefðu ekki samþykkt þá aðferðafræði sem var notuð með augasteinsaðgerðirnar þar sem samið var við einkaaðila (Gripið fram í.) af því að trúarbrögðin og kreddan eiga heima hjá þingflokki Vinstri grænna en ekki hjá stjórnarflokkunum