135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson grautar hér algjörlega saman og leggur að jöfnu þjónustu sem félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, veita í rekstri sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni og einkarekstri í ágóðaskyni. Hann kemst upp í einn þriðja af útgjöldunum með því að færa SÍBS, DAS, SÁÁ og aðra slíka aðila undir einkaaðila og ber okkur svo það á brýn að við séum á móti starfsemi sem þessir aðilar annast. Það er rakalaus þvættingur og ég bið hv. þingmann um að finna þeim orðum sínum stað að Vinstri hreyfingin – grænt framboð sé andvíg þeirri þjóðþrifastarfsemi sem t.d. SÍBS veitir á Reykjalundi eða SÁÁ á sinni stöð á Vogi o.s.frv. Þetta er einfaldlega bull en skýrist kannski af því að hv. þingmaður virðist hafa búið sér til þá mynd af heiminum að þetta sé allt einn einsleitur einkarekstur og engu máli skipti hvort um er að ræða áratugagömul félagasamtök og sjálfseignarstofnanir, sem spruttu upp af þörfinni fyrir að sinna hagsmunum umbjóðenda sinna og landsmanna allra, eða nýríka bisnessmenn sem nú ætla að streyma inn í heilbrigðisþjónustuna til mjólka út úr henni peninga.

Hv. þingmaður. Það er náttúrlega undarlegasta jafnaðarstefna sem ég hef nokkurn tímann heyrt að það sé alveg stórhættulegt að fagfélög og stéttarfélög megi í einhverjum tilvikum koma saman — ef t.d. ljósmæður vilja semja á félagslegum grunni um tiltekna skilgreinda þjónustu sem þær veita í heimahúsum t.d. í staðinn fyrir að þurfa hver og ein vítt og breitt um landið að stofna einkafyrirtæki til þess að geta verið aðilar að slíkum hlutum. Ég hef aldrei heyrt aðra eins jafnaðarmennsku en það er náttúrlega ekki minn hausverkur heldur hv. þingmanns að tala fyrir slíku.

Hv. þingmaður skrifar hins vegar, og það skiptir mestu máli, algjörlega gagnrýnislaust upp á hugmyndafræðina sem að baki liggur, markaðsvæðingarhugmyndafræðina, aðgreininguna í kaupendur og seljendur og er kannski með meira samviskubit en maður hafði áttað sig á yfir því að standa að því ásamt með öðrum úr þingflokki Samfylkingarinnar að afhenda Sjálfstæðisflokknum heilbrigðisráðuneytið vitandi hvaða stefnu sá flokkur hefur og hvar hjarta hans slær.