135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nafngiftirnar segja ekki allt. Tony Blair þóttist einhvern tíma vera vinstri maður en er hægri sinnaðri en hægri armurinn í Íhaldsflokknum breska.

Markmiðið með rekstri velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustunnar á að vera að veita þjónustu, lækna fólk og veita því aðhlynningu. Markmiðið með arðsemisrekstri er í og með, og í sumum tilvikum að grunni til, að veita eigendum fjárfestinganna arð. (PHB: Með því að veita góða og ódýra þjónustu.) Með því að veita ódýra og góða þjónustu, en það er nú það sem Ríkisendurskoðun benti okkur á, niðurstaðan væri sú að slíkur rekstur þar sem við höfum hann í íslenska heilbrigðiskerfinu hefði reynst skattborgaranum dýrari. Þetta var réttlætt með því að eigendur viðkomandi fyrirtækis þyrftu að hafa arð af þessari starfsemi.

Ég tel að markaðsstarfsemi og fyrirtækjarekstur eigi við um allflesta þætti samfélags okkar og plumi sig ágætlega. Við mælum hins vegar gegn því að þessum sjónarmiðum og þessum lögmálum verði veitt inn eftir spítalaganginum. Um það snúast átökin, hvar eigi að draga mörkin á milli arðsemisreksturs annars vegar og almannaþjónustu hins vegar.