135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:24]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja það eftir að hafa hlustað á þessa ræðu að ég á mjög erfitt með að skilja af hverju Framsóknarflokkurinn hefur þá sérkennilegu afstöðu að ætla að sitja hjá. Ég gæti vel skilið það ef hv. þingmaður hefði talað á þeim nótum sem kollegi okkar, hv. þm. Ögmundur Jónasson, talaði hér fyrr í dag.

En í máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar kemur fram í fyrsta lagi að hann telur að sá lagarammi sem felst í þessu sé alls ekki slæmur. Í öðru lagi sagði hann að það væri margt gott í frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Og ef það er svo og hv. þingmaður bendir ekki á neitt handfast sem er neikvætt, hvað er það þá sem veldur því að framsóknarmenn, og hv. þingmaður sérstaklega, leggja ekki í að styðja frumvarpið?

Mér finnast það engin rök að segja að vegna þess að einn tiltekinn flokkur fari núna með málaflokkinn sé ekki í þessa sjóferð leggjandi. Eins og hv. þingmaður veit erum við öll eins og blik fyrir eilífðinni og okkar vera hér verður ekki til eilífðar, hvorki okkar sem þingmanna né einstakra flokka sem fara með tiltekinn part framkvæmdarvaldsins núna.

Mér finnast þetta engin rök og þetta felur líka í sér mjög mikla vantrú á því lýðræðislega samfélagi sem við búum við. Það byggist upp á því að valdþættirnir veita hver öðrum aðhald. Löggjafinn í krafti þeirra úrræða sem stjórnarskráin veitir honum, þó að ég vildi gjarnan að þau væru sterkari, hefur tök á því að sýna fram á með eftirlits- og aðhaldshlutverki sínu ef framkvæmdarvaldið bregst svo illa að það leggst hugsanlega í túlkun sinni á þessum lögum öndvert gegn yfirlýstum markmiðum sem koma þarna fram í frumvarpinu og fela m.a. í sér að allir eiga að vera jafnir fyrir þessum lögum og að allir eigi að fá þjónustu óháð efnahag. Það er mergurinn málsins. Allir verða jafnir fyrir þessu kerfi. En mér (Forseti hringir.) heyrist hv. þingmaður ekki hafa trú á því.