135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:33]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla, alveg öfugt við hæstv. iðnaðarráðherra, að hrósa hv. þm. Bjarna Harðarsyni og Framsóknarflokknum — sem gerist nú ekki á hverjum degi — fyrir það að vera að átta sig á þessu máli. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þingmanns og greining hans á málinu var í öllum aðalatriðum rétt og sú sama sem lesa má um í nefndaráliti 1. minni hluta. Hér er verið að ryðja markaðs- og einkavæðingarhugsun braut og sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn fer með heilbrigðisráðuneytið með yfirlýstan áhuga sinn á því að einkavæða, færa meira yfir í einkarekstur, verður ekki þurrkuð út í þessu máli. Hún er staðreynd.

Framsóknarflokkurinn ætti að þekkja þetta af 12 ára sambúð við Sjálfstæðisflokkinn. Og ég vil taka það fram að þó að þeim yrði á í messunni á köflum, bognuðu og færu út í umdeilanlegan einkarekstur þá stóðu þeir líka í lappirnar í þó nokkrum mæli gagnvart einkavæðingaráráttu Sjálfstæðisflokksins. Meðan Jón Kristjánsson var heilbrigðisráðherra átti hann t.d. alltaf okkar stuðning vísan á meðan hann stóð gegn einkavæðingarofstækinu í Sjálfstæðisflokknum, og þá skipti það auðvitað máli að heilbrigðisráðuneytið var ekki í höndum sjálfstæðismanna.

Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður sagði um verðmiðann. Við stöndum einfaldlega stundum frammi fyrir því að sú spurning kemur upp, ef peningalegur mælikvarði er lagður á alla hluti í þessari viðkvæmu velferðarþjónustu: Hvað má eitt mannslíf kosta? Hvað má lyfjameðferð verða dýr áður en henni er neitað? Og það er inn á þessa vegferð sem menn eru að leggja.

Að síðustu var það ákaflega athyglisvert, sem fram kom í andsvari hjá hv. þingmanni, og ég leyfi mér að spyrja um það, að innan Framsóknar væri jafnvel hafin ákveðin endurskoðun á nýfrjálshyggjuveikinni sem auðvitað skók Framsókn líka og lék hana grátt á löngum tímabilum. (Forseti hringir.) Mjög áhugavert væri að heyra meira af því.