135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:38]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessum síðasta kafla í svari hv. þingmanns er ég algjörlega sammála. Nú hefðu menn kannski einhvern tímann í flokki hans notað gamla taktík og sagt: Rétt, allt rétt. Það gerðu framsóknarmenn gjarnan þegar þeir voru að hvetja sína menn í ræðustóli, þeir höfðu nokkra úti í salnum sem kölluðu þetta fram í af og til til að peppa sína menn upp.

Það er alveg hárrétt og það er ákaflega spennandi að fylgjast með því hvernig endurmat á þessari blindu nýfrjálshyggjukapítalistavæðingu fer nú fram — ég veit ekki hvort hv. þm. Pétur Blöndal er mikið farinn að efast enn. En þegar maður les athyglisverðar greinar eftir menn eins og Bill Gates og Soros þar sem þeir nánast láta opinberlega í ljós iðrun yfir því hversu flatir þeir féllu fyrir hinni hráu einkagróðagræðgisvæðingarhyggju eða hvað við nú köllum það þá er það athyglisvert. Þegar páfar eins og Bill Gates mæta á fund iðnríkjanna og fara að tala um að endurskapa þurfi þetta í einhverju nýju formi, einhverju skapandi og uppbyggilegu. Það er með öðrum orðum verið að segja að nýfrjálshyggjan hafi ekki verið það og að hún hafi rústað þessu öllu niður.

Hv. þingmaður leggur annars vegar áherslu á markaðsvæðinguna, það sé það vitlausasta að ríkið kaupi jafnvel af sjálfu sér, og verðhugsunina sem sé innleidd og ég er að sjálfsögðu alveg sammála því. En það greinir okkur kannski að að ég tel að við eigum ekki að skauta svo létt yfir einkaréttarhugsunina í ágóðaskyni sem einnig er verið að innleiða. Hið fyrra er undanfari hins síðara.

Hvar endar það ef einkaaðilar fara inn í þessa viðkvæmu þjónustu okkar í litla samfélagi þar sem við höfum ekki efni á því að dreifa kröftunum? Stökkva á feitustu bitana, hirða arð út úr þeim rekstri og skilja hið opinbera eftir með afganginn, þyngstu og erfiðustu verkefnin sem enginn vill taka að sér af því að á þeim er ekkert að græða? Þetta er það sem við getum átt í vændum (Forseti hringir.) og það er gott að Framsókn sé aðeins að sjá ljósið í málinu.