135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:40]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg reyndar að innan Framsóknarflokksins hafi mönnum alltaf verið ljóst að þessar hættur væru til staðar í heilbrigðiskerfinu. Við heyrðum það vel á máli hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur í dag. Við heyrðum það líka á máli hæstv. forsætisráðherra rétt eftir myndun núverandi ríkisstjórnar þegar hann sagði að hægt væri að gera ýmislegt í heilbrigðiskerfinu sem ekki hefði verið hægt að gera með fyrri samstarfsflokki.

En varðandi endurmat á markaðshyggjunni þá langar mig að ítreka hér orð sem ég vitnaði í fyrr í dag frá prófessor Páli Skúlasyni, að hugmyndafræði eins og markaðshyggjan, sem hefur verið grasserandi í samfélaginu, hefur ekki átt sér einhvern einn stjórnmálaflokk eða einhverja ákveðna fræðinga til að tala sínu máli. Hún hefur hreinlega verið allsráðandi. Ég held að það hafi náð inn í raðir allra stjórnmálaflokka. Ég minnist þess ekki — þegar ég stóð upp hér fyrir nokkuð mörgum árum og mótmælti hugmyndum manna um að etja yrði smábændum, garðyrkjubændum og kartöflubændum saman í blóðuga samkeppni sín á milli til þess að lofa markaðsguðinn, ég taldi þá að þeir mættu vel tala saman og vel koma sér saman um verð þessir smáframleiðendur — að nokkur stjórnmálaflokkur hafi stutt mig í þeim málflutningi einfaldlega vegna þess að markaðstrúin var svo algjör í samfélagi okkar.

Og það er sú markaðstrú sem við þurfum að endurskoða. Eina heiðarlega undantekningin frá þessu er sú að við höfum viðurkennt rétt launafólks til að koma sér saman um laun sín en lengra hefur alls ekki mátt ganga. Þetta er alveg andstætt því Íslandi sem ég ólst upp í þar sem smáframleiðendur höfðu einmitt samtök sem þessi. Sjálfur er ég alinn upp í garðyrkugeiranum þar sem æðst synda var, þegar ég var barn, framhjáhald. En það var ekki framhjáhald fram hjá (Forseti hringir.) eiginkonu, það var framhjáhald fram hjá Sölufélagi garðyrkjumanna.