135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:01]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef svarað því sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir bar hér fram til mín sem ekki var í ræðustól í dag um leið og hún bar fram þá fyrirspurn til hv. þm. Þuríðar Backman í andsvari um það hvernig á því stæði að við tækjum inn í nefndarálit okkar þennan fyrirlestur Allyson Pollock. (Gripið fram í.) Við fengum til þess leyfi.

Hv. þingmaður, ég kannast ekki við að nokkru sinni hafi verið gerðar athugasemdir af þessu tagi. Ég verð bara að segja alveg eins og er að ég veit ekki af hvaða hvötum það er. Eins og ég sagði í dag hafa þingmenn hér um árabil sett sem fylgiskjöl hvaðeina sem þeir telja að styðji málflutning sinn og séu rök fyrir því máli sem þeir flytja. Hér eru aldrei gerðar athugasemdir við það. Þess vegna er þessi athugasemd hv. þingmanns algerlega (Forseti hringir.) óskiljanleg og tilefnislaus.