135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:05]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á bls. 10 í nefndaráliti okkar segir hvaðan þessar tölur eru komnar. Þær eru frá Hagstofu Íslands 2006 og Þjóðhagsstofnun 2002 þannig að því sé svarað.

Ef rýnt er í þetta stólparit í nefndarálitinu má sjá að samkvæmt því hafi beint-úr-buddunni-greiðslur verið á árinu 2004 16% sem hv. þingmaður segir að sé núna, þremur árum síðar, samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir 2007 í mars eða apríl 16,92%. Ég sé ekki að það hafi lækkað mikið, a.m.k. ekki frá 2004. Þetta eru tölur frá Hagstofu Íslands.

Við getum ýmislegt lært af Svíum. (Gripið fram í.)Við hefðum kannski átt að kynna okkur betur hvernig Svíar fara að því að hafa tannlækningar ókeypis fyrir 19 ára og yngri. Það hefði verið verðugt verkefni fyrir hv. heilbrigðisnefnd og fleiri þingmenn að læra eitthvað af því og eins hvernig þeir hafa haldið niðri gjaldtöku í almennu heilsugæsluþjónustunni sem við höfum því miður misst alla stjórn á. Því verður ekki á móti mælt að kostnaðarþátttakan, þó að hún sé mæld í prósentum eins og hér er, hefur aukist hlutfallslega mjög mikið með því að útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið mjög mikið og það hefur verið sýnt fram á að það bitnar einkum og sér í lagi á þeim sem hafa minnstar tekjurnar. Þess vegna er það að fólk hefur ekki efni á því að senda (Forseti hringir.) börnin sín til tannlæknis.