135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[19:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talaði mikið um einkavæðingu sem aðrir í hennar flokki hafa líka gert hér í umræðunni. Í sjálfu sér get ég glaðst yfir því því að ég er hlynntur einkavæðingu og gleðst stöðugt yfir því að menn tali svona mikið um einkavæðingu og gefi mönnum góðar hugmyndir. Hins vegar virðast þeir óttast einkavæðingu, ég sé ekkert í þessu frumvarpi sem ætti að næra þann ótta eða mína bjartsýni.

Hins vegar sagði hv. þingmaður að verstu rúsínurnar yrðu skildar eftir. Það er dálítið merkilegt vegna þess að hv. þingmaður var með mér í Svíþjóð þar sem menn eru að taka upp DRG-kerfi sem mælir þyngd ákveðinna aðgerða og greiðir fyrir þær samkvæmt þyngd þannig að það er bara hörkubisness að taka mjög þung dæmi og þau verða ekkert skilin eftir sem einhverjar lélegar rúsínur. Þetta á náttúrlega ekki við rök að styðjast.

Svo hefur mikið verið vísað hérna í tvær skýrslur frá BSRB sem eru nefndar í nefndaráliti 1. minni hluta. Mér sýnist að formaður þingflokks hv. þingmanns sé í rauninni að breyta BSRB í pólitískan flokk, stjórnmálaflokk, vegna þess að það er búið að kalla utan lands að alls konar já-bræður til að taka þátt í pólitískri umræðu á Íslandi um vatn, um Doha-viðræðurnar sem BSRB hreinlega tók pólitíska afstöðu gegn og gladdist yfir að hefðu farið út um þúfur. Aðrir telja að það valdi því að hungrað fólk í heiminum verði hungrað áfram. Svo eru núna fengnir tveir sérfræðingar frá Bretlandi, já-bræður, til að gefa sérfræðilegt álit á þessu og þá er það orðinn heilagur sannleikur, allt með félagsgjöldum opinberra starfsmanna.