135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:01]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína hvað hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir sagði um skýrslu OECD. Hún rakti nokkur atriði í fyrirlestri Allyson Pollock til þeirrar niðurstöðu að það plagg væri einskisvert og þá í augum okkar Vinstri grænna.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að þegar skýrsla OECD kom hér til umræðu í vetur, og það var nokkuð mörgum mánuðum áður en sá ágæti fyrirlestur Allyson Pollock var fluttur hér, sögðum við Vinstri græn nei takk við þeim trakteringum sem þar voru á borð bornar. Á það sérstaklega við um heilbrigðismálin þar sem beinlínis var lagt til að afnema allar hömlur á þjónustu einkaaðila í heilbrigðisþjónustu, opna fyrir samkeppni og koma á kostnaðarþátttöku sjúklinga þar sem hún væri ókeypis nú. Og hvar skyldi þjónustan vera ókeypis? Það er á sjúkrahúsunum, þar er þjónustan ókeypis. Þar vill OECD koma á gjaldtöku. Og loks að forgangsraða í heilbrigðisþjónustunni.

Við sögðum nei takk við þessum trakteringum rétt eins og við segjum nei takk við þeim trakteringum frá OECD að taka eigi húsnæðisþáttinn út úr vísitölunni, afnema ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði, selja orkuframleiðslu Landsvirkjunar og krefjast frekari undanþágna frá stóriðju. Það er nú bara þannig. Ekki þarf að leita út fyrir landsteinana til þess að menn séu gagnrýnir á það sem frá OECD kemur. Ég vildi bara vekja athygli hv. þingmanns á því.