135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:07]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur verður mjög tíðrætt um fylgiskjölin sem fylgja nefndaráliti okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs með frumvarpinu. Ég vildi óska að önnur hagsmunasamtök, eins og ASÍ, BHM og fleiri, hefðu tekið sér BSRB til fyrirmyndar og leitað eftir erlendum fræðimönnum sem væru viðurkenndir á þessu sviði til þess að fá upplýsingar og umræður innan félaga sinna og samtaka, til þess að læra af reynslu annarra og til að fara yfir og vega og meta stöðuna betur en gert hefur verið. Ég dreg ekki í efa að ef við hefðum fengið fleiri slík gögn í hendurnar hefðum við líka leitað í þau.

Hvað varðar lækna og samtök þeirra þá er það ekkert einsdæmi að læknar í Svíþjóð og Bretlandi hafa verið því mjög fylgjandi að koma þessu kerfi á. Það eru læknar á Íslandi líka. Samtök lækna á Íslandi eru líka hvetjandi í því að koma þessu á. Það er ekki af einskærri umhyggjusemi fyrir sjúklingunum. Hverja telur hv. þingmaður vera ástæðu þess að læknar sem hafa opnað einkaheilsugæslustöðvar í Svíþjóð hafa opnað stöðvar sínar í þeim hverfum þar sem fólk er ríkt, þar sem barnafjölskyldur eru fáar, þar sem fátækt er lítil? Hvers vegna er það? Af hverju velja þeir þessa staði? Hvers vegna (Forseti hringir.) virkar greiningarkerfi hvetjandi á þjónustuna á þeim stöðum þar sem hún er eingöngu notuð? Er það ekki í (Forseti hringir.) ágóðaskyni? Ekki eingöngu fyrir sjúklingana.