135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:16]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta hefur verið löng umræða hér í dag og að mörgu leyti fróðleg. En stundum finnst manni að fólk fari of mikið um víðan völl og taki kannski of mikið upp í sig. Mér er ekki eins heitt í hamsi og ýmsum öðrum fyrri ræðumönnum hér í dag og finnst mér sumir þeirra reyndar hafa misst sjónar á aðalatriðunum í því máli sem er hér á dagskrá.

Það sem er á dagskrá er tiltölulega einfalt og augljóst. Það er verið að leggja fram frumvarp sem að í meginefni felur það í sér að ríkinu sé heimilað að setja á fót stofnun sem hafi það hlutverk að bjóða út þjónustu og fylgjast með árangri og afköstum innan geirans eftir að hafa kostnaðargreint þá starfsemi sem um er að ræða. Að gefnu tilefni segi ég: Ekki er verið að kostnaðargreina heilsuna, eins og einhver tók til orða hér við umræðuna í dag. Það er verið að kostnaðargreina lækninguna og þjónustuna sem veitt er til þess að fólk geti haldið heilsu. Á þessu tvennu er verulegur munur.

Með öðrum orðum er verið að gera tilraun til að hafa á því stjórn og hafa með því eftirlit hvernig fjármunir sem varið er til heilbrigðismála eru nýttir. Það er verið að skilgreina þjónustuna og hafa umsjón með þeim aðilum sem veita hana og reyna þannig að halda uppi aðhaldi með þjónustuaðilum hvort heldur er um að ræða heilbrigðisstéttir eða heilbrigðisstofnanir í opinbera geiranum eða í einkarekstri.

Umræðan um þær grafalvarlegu breytingar sem eiga sér stað í kjölfar frumvarpsins eru líka að mínu mati á misskilningi byggðar. Til margra ára hefur það verið heimilt samkvæmt lögum að semja við einkaaðila um að taka að sér tiltekna þjónustu og í dag skilst mér að um 30% af heilbrigðisþjónustu á Íslandi séu í höndum annarra en opinberra aðila. Þetta ástand hefur því verið til staðar og í grundvallaratriðum erum við ekki að breyta neinu. Við erum einungis að reyna að koma böndum á kostnaðinn og útreikninga sem honum fylgja og reyna að hafa strangt eftirlit með því að féð sem fer í þennan málaflokk, sem er vissulega stór og þýðingarmikill málaflokkur, sé undir eftirliti og að við vitum fyrir hvað við erum að borga.

Ég skil frumvarpið fyrst og fremst á þennan hátt og mér finnst það vera skref í rétta átt. Það felur ekki í sér neina stórvægilega grundvallarbreytingu í afstöðu okkar til heilbrigðismála. Sem betur fer hefur það komið fram í umræðum hér, svo að ekki fer á milli mála, að allir ræðumenn og allir flokkar eru einhuga um að standa áfram vörð um hið félagslega heilbrigðiskerfi. Að mínu mati er ekki verið að gera neina tilraun til þess að einkavæða. Það er hræðsluáróður og fælni við hið óþekkta. Það er verið að reyna að hagræða í kerfinu. Það er þungamiðja málsins, inntak og kjarni frumvarpsins.

Ég vil að gefnu tilefni enn og aftur undirstrika að einkavæðing felst í því að heilbrigðisþjónusta sé veitt af einkaaðilum án þess að ríkið taki þátt í kostnaðinum, að þeir efnameiri geti þannig notið forgangs með því að borga betur og meira en aðrir og njóti sérþjónustu og betri meðferðar með því að borga sig fram fyrir í röðinni. Ekki er verið að innleiða slíkt kerfi hér. Þungamiðja málsins er sú að verið er að veita þjónustu áfram án tillits til aldurs, kyns eða efnahags. Ég legg mikla áherslu á það. Hvað svo sem sagt er í þessari umræðu þá er alveg kýrskýrt að ekki er verið að innleiða neins konar einkavæðingu á hinu háa Alþingi.

Við þekkjum flest það ástand sem ríkt hefur í heilbrigðismálum á Íslandi. Við þekkjum það að í fjárlögum er kastað fram einni ákveðinni tölu sem á að duga til að reka kerfið í heilt ár. Stöðug vandamál eru uppi þegar líða tekur á árið í heilbrigðisgeiranum. Það ástand hefur kallað á biðlista og lokanir og alls kyns vitleysislegan sparnað og auðvitað óvissu og uppnám bæði hjá starfsfólki og þiggjendum þessarar grundvallarþjónustu samfélagsins.

Það er verið að reyna að ná tökum á þessu ástandi. Það er verið að reyna að laga það til. Ég get varla ímyndað mér að nokkur hafi á móti því að þessi tilraun sé gerð. Hér er verið að tala um að taka upp fyrirkomulag og kerfi um kostnaðargreiningu sem hefur verið notað í flestum ef ekki öllum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Það hefur að mati sérfróðra manna tekist vel og reynst vel í viðleitni allra þjóða til að hafa yfirsýn yfir þann kostnað sem fer í þennan málaflokk, hvernig hann er skilgreindur og nýttur.

Ég held, hæstv. forseti, að þetta sé meginmálið í frumvarpinu. Ég tel að það sé fullkomlega tilraunarinnar virði. Auðvitað má búast við að einhver slys verði á leiðinni, mistök verði gerð og við rekumst á einhverjar girðingar. Ekki er við öðru að búast þegar við nálgumst vandamálið eða viðfangsefnið frá nýjum sjónarhóli. Það var líka reynsla Svíanna að mistök áttu sér stað í upphafi en verið er að fara inn á nýjar brautir sem fela í sér hagræðingu þar sem beitt er nýrri tækni og nýjum vinnubrögðum. Ekki er verið að breyta grundvallarþjónustunni eða hverfa frá hinu félagslega heilbrigðiskerfi.

Að síðustu vildi ég gera hér að umtalsefni það viðhorf sem við þurfum að hafa gagnvart þiggjendum þjónustunnar að því er varðar réttindi þeirra. Að langstærstum hluta til munu ríkisspítalar og opinberar stofnanir bera hita og þunga dagsins í þessari þjónustu hér eftir sem hingað til, og það vonandi um ókomin ár. Enda gerir kerfið ráð fyrir að fyrst og fremst sé verið að taka til, ef svo má segja, eins og ég hef hér verið að lýsa. En þó að þjónusta kunni að einhverju leyti að færast frá opinberum stofnunum til einkaaðila þá breytist hagur og réttur sjúklinga í engu nema þá til góðs, hún verður vonandi betri og eftirlitið áhrifameira. Eftirlit með þjónustunni verður samkvæmt frumvarpinu strangara og markvissara ef eitthvað er en það breytir því hins vegar ekki að við þurfum að standa vaktina út frá stjórnarskrá og út frá stjórnsýslurétti og jafnaðarreglu þannig að hagsmunir þeirra sem þiggja þjónustuna séu áfram varðir og tryggðir þegar kemur að réttarstöðu þeirra.

Ég nefni þetta vegna þess að í skýrslu umboðsmanns Alþingis frá því í fyrra er nokkuð fjallað um þetta atriði út frá réttarstöðu aldraðra og þeim tilmælum beint til framkvæmdar- og löggjafarvaldsins að skoða stöðu aldraðra hvað þetta varðar með vísan til þess að einkaaðilar hafi í vaxandi mæli tekið að sér vistun, hjúkrun og umönnun ellilífeyrisþega.

Í þessari skýrslu vísar umboðsmaður Alþingis til þess að réttarstaða aldraðra kunni að breytast hvað varðar stjórnsýsluréttinn og andmælaréttinn og eftir atvikum kæruréttinn þegar aldraðir einstaklingar telja að einkaaðili sem annast þjónustu við þá hafi brotið á sér. Sú athugasemd af hálfu umboðsmanns Alþingis á ekki sérstaklega við það frumvarp sem hér er til afgreiðslu, enda vísar umboðsmaður til þess að nú fer fram endurskoðun á almannatryggingalögunum og lögum um málefni aldraðra sem hann hyggst, samkvæmt skýrslunni, fylgjast með út frá þeim athugasemdum sem hann hefur gert um réttarstöðu aldraðra í slíkum tilvikum.

Ábendingar eða athugasemdir umboðsmanns víkja því ekki að þiggjendum heilbrigðisþjónustunnar almennt. En í frumvarpinu er eins og allir vita verið að fjalla um hagsmuni, þjónustu og rétt sjúkra og sjúklinga. Það má öllum vera ljóst.

Réttur sjúklinga er sem sagt til umfjöllunar í frumvarpinu og hann mun í engu breytast hvað þá versna með breyttum lögum um sjúkratryggingar. Hagræðingin á að vera sjúklingunum til bóta. Réttur sjúklingsins til þjónustunnar er í engu skertur. Hann er áfram varinn með lögum um rétt sjúklinga og eftirlit með gæðum þjónustunnar verður aukið með þessari lagasetningu. Vísa ég þá til kaflans um hlutverk landlæknis svo að eitthvað sé nefnt.

Ég leyfi mér að fullyrða að tilgangur löggjafans sé ekki sá að skerða rétt eða brjóta hann þegar tiltekin þjónusta er að einhverju leyti flutt frá hinu opinbera til einkaaðila ef til þess kemur enda er þá gengið út frá því við samningu frumvarpsins. Ég minni á að þegar rætt er um þiggjendur heilbrigðisþjónustunnar eru þeir ekki skilgreindir sem ungir eða gamlir. Sjúklingur er sjúklingur án tillits til aldurs.

Ég læt þessi orð falla hér við þessa umræðu að gefnu tilefni vegna skýrslu frá umboðsmanni Alþingis þar sem rætt er um réttarstöðu aldraðra út frá stjórnarskrá og stjórnsýslurétti þegar um er að ræða þjónustu t.d. á dvalarheimilum eða sjúkrastofnunum. Þetta er sem sagt önnur Ella og við getum þá fylgt því máli eftir þegar þar að kemur og reynsla er komin á, þegar við höfum meiri yfirsýn yfir fleiri lagabálka.

Hæstv. forseti. Það er með góðri samvisku sem ég styð þetta frumvarp. Enginn vafi er á því að um er að ræða ný og mjög merkileg vinnubrögð sem hrinda á í framkvæmd og ég bind nokkrar vonir við að þetta verði heilbrigðismálunum til góðs. Í öllum aðalatriðum, í hugmyndafræðinni á bak við þetta mál og í textanum, sé ég engar stórar hættur sem þessu fylgja. Við erum að nútímavæða og hagræða í heilbrigðisgeiranum skattgreiðendum og þiggjendum þjónustunnar til góðs. Á þann hátt erum við vonandi að bæta þjónustuna og gæðin og nýta peningana betur og taka á vanda sem hefur því miður verið viðvarandi í mjög langan tíma. Ég tel að samþykkt frumvarpsins verði skref í rétta átt og heilbrigðismálum til hagsbóta og samfélaginu öllu þegar upp verður staðið.