135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:32]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek strax fram að ég treysti samstarfsflokknum vel og dyggilega í að standa vörð um það sem stendur í þessu frumvarpi, að standa vörð um hið félagslega heilbrigðiskerfi, styrkja það með þessum ráðum og veita áfram góða þjónustu án tillits til aldurs eða efnahags.

Spurt er um ástandið í Svíþjóð. Ég er nú ekki fær um að rekja það í stuttu máli eða löngu hvernig það hefur þróast en að gefnu tilefni vil ég taka fram að það er einkavæðing ríkjandi að einhverjum hluta til í Svíþjóð eins og víða annars staðar. Það er líka hægt að hafa einkarekstur hér sem er hægt að flokka undir það að vera einkavæðing. Það er enginn sem bannar að einhver læknir eða sjúkrastofnun taki upp á því að bjóða þjónustu og taki fullt gjald fyrir. Það er öllum frjálst og ég hef ekkert við það að athuga.

Við verðum bara að standa vörð um þetta félagslega kerfi sem við höfum byggt upp hér fram að þessu og láta það vera þannig í pottinn búið að við vitum hvað það kostar, hvað það býður upp á og treysta þetta kerfi til þess að Íslendingar allir, háir sem lágir, geti leitað til þeirra og að við séum sjúkratryggðir. Það er forsendan fyrir þessu frumvarpi. Það er forsendan fyrir því að við erum með félagslegt heilbrigðiskerfi.

Einkavæðing getur vel verið til hliðar við okkur og mér kemur það bara ekkert við. Við erum með þessu að styrkja þær stoðir sem við leggjum áherslu á og höfðar til samfélagsins alls.