135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:34]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nokkur vandi fyrir okkur sem gagnrýnum þetta frumvarp að við verðum að byggja á reynslu annarra sem hafa komið og innleitt þetta sama kerfi. Það getum við gert vegna þess að það var innleitt upp úr 1990 bæði í Bretlandi og í Svíþjóð. Í Svíþjóð var rekið opinbert sjúkrahús, Sankt Görans sjukhus, og það var hreinlega selt. Ríkið seldi þetta sjúkrahús með manni og mús og það var einkarekið og einkafjármagnað.

Það varð til þess næsta landsþing sagði stopp og bannaði að selja opinbera heilbrigðisþjónustu eins og gert hafði verið. Nú er búið að afnema þessi stopplög til þess að geta haldið áfram að koma heilbrigðisþjónustu í algeran einkarekstur eins og þeir kalla „prívat prívat“. Nú eru að koma tvö sjúkrahús, bæði geislameðferðarstofnun sem þegar er tekin til starfa og barnaspítali sem er að hefja starfsemi.

Það eru miklar deilur í Stokkhólmi um að það skuli vera búið að hleypa þessu í gegn og þess sem bíður handan við hornið. Menn sjá að stór alþjóðleg heilbrigðisfyrirtæki ryðja sér inn á alla þá markaði þar sem þau geta til þess að hafa hagnað af heilbrigðisþjónustu. Það er verið að leita að þeim og reynt að koma þeim inn í þessa þjónustu.

Auðvitað er það þjóðhagslega dýrt þegar verið er að taka ágóða út úr rekstri sem við höfum hingað til kallað þjónustu. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort hann hafi skoðað hvort stefnumótun og heilbrigðisáætlun Alþingis sem við höfum samþykkt muni skarast á við 40. gr. um (Forseti hringir.) vald heilbrigðisráðherra til stefnumótunar og við það að framfylgja henni.