135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:38]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil í upphafi taka það fram að ég er alls ekki sammála hv. þingmanni um að frumvarpið sem við ræðum hér breyti í rauninni engu og sé bara hagræðing. Við höfum rökstutt að með því að skipta heildstæðri heilbrigðisþjónustu upp í tvennt, annars vegar í kaupendur og hins vegar seljendur, er verið að gera grundvallarbreytingar á þjónustu.

Við höfum ekkert á móti bókhaldi, ekki neitt, við viljum þó helst að það sé rétt. Við höfum því ekki lýst neinni andstöðu hér við kostnaðargreiningu hvort heldur er við DRG eða RAI-mat á öldrunarstofnunum. Við segjum bara að menn eigi ekki að trúa blint á þetta og halda að það taki á þeim vanda sem uppi er í heilbrigðisþjónustunni í dag. Það koma ekki meiri peningar inn í þetta kerfi með þessum hætti.

Hv. þingmaður hefur beitt sér mjög fyrir réttindum eldri borgara á vegum flokks síns, Samfylkingarinnar. Lögð hefur verið mikil áhersla á að með einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu sé verið að auka valfrelsi manna um það hvaða þjónustu þeir geti sótt sér, hvaða lækni þeir velja — þeir þurfi ekki bara að fara til eins læknis eða til eigin læknis heldur geti þeir valið úr öllu mögulegu. Slíkt val og valfrelsi hlýtur auðvitað að byggjast á upplýsingum og aðgangi að upplýsingum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann haldi að aldraðir, sem kannski eru veikir og berskjaldaðir, háðir því að sérfræðingur taki ákvarðanir fyrir viðkomandi, muni njóta þessa valfrelsis sem lögð er áhersla á í sama mæli (Forseti hringir.) og þeir sem yngri eru og liggja á netinu alla daga?