135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:41]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gleðst nú yfir þeirri yfirlýsingu hv. þingmanns að við séum sammála um að vera ekki sammála. Ég virði alveg afstöðu og skoðanir hv. þingmanns í þeim efnum.

Spurt er um hvort ég telji að þetta muni leiða til aukins valfrelsis fyrir aldraða þegar kemur að því að þeir þurfa að fá vistun eða að dvelja á einhverjum heimilum eða hvort þeir muni njóta þessa valfrelsis og hvernig þá.

Ég held náttúrlega almennt séð að það sé kostur eftir því sem valkostirnir eru fleiri og meiri tilbreyting í þeim. Hvort sem við köllum það valfrelsi eða eitthvað annað eru það möguleikar og tækifæri sem fólk getur valið úr. Hitt er svo annað mál hvort fólk er fært um að taka ákvörðun um hvort það vilji velja A eða B. Er það ekki bara eins og með allt annað í lífinu, eftir því sem fólk eldist á það kannski erfiðara með að taka réttar ákvarðanir? Ég er nú kannski ekki alveg sammála því vegna þess að eftir því sem fólk eldist þá þroskast það og vitkast og hefur meiri skynsemi til þess að velja réttu kostina.

Ég held að þetta sé huglæg spurning sem krefjist huglægs svars sem er bara í samræmi við hvað mér finnst. En það er ekki neitt sem mér finnst snerta þetta mál sem hér er á dagskrá nema að ég geri mér vonir um að eftir því sem fleiri vilja bjóða fram þessa þjónustu því meira frelsi og betri tækifæri verði á boðstólum fyrir það fólk sem þarf á þessu þarf að halda.