135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[20:57]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Þannig vildi til að þegar ég var að hlusta á umræðuna í dag lá á borðinu hjá mér setningin: Oft er þögnin betri en þarflaus ræða. En þrátt fyrir að hafa fengið það framan í mig sem kannski hefur verið áminning um að óþarfi væri að taka þátt í umræðu sem tekið hefur jafnlangan tíma og umræðan hefur gert í dag gat ég ekki sleppt því að taka til máls og biðst velvirðingar á því að auðvitað verða einhverjar endurtekningar í umræðunni.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks var mynduð á síðasta ári voru sett inn nokkur atriði varðandi heilbrigðismál. Það eru sameiginleg markmið sem þar eru sett. Þar er talað um heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða og er ástæða til að ítreka að umræðan sem á sér stað hér er ekki í því samhengi að verið sé að tala um einhvern vandræðagang í heilbrigðisþjónustu eða að heilbrigðiskerfið sé slappt. Við búum við gríðarlega gott heilbrigðiskerfi en höfum einsett okkur að gera enn betur og þess vegna var það sett inn að við ætluðum okkur ekkert minna en að vera með heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

Orðið öryggi er líka sett þar inn, þ.e. örugg heilbrigðisþjónusta. Í stefnuyfirlýsingunni er líka talað um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og einnig er talað um nútímavæðingu, um kostnaðargreiningu, þ.e. að menn átti sig betur á hvar kostnaður myndast og hvernig hann deilist. Talað er um blandaða fjármögnun og að fjármagn fylgi sjúklingi. Samkvæmt mínum skilningi er þar fyrst og fremst verið að ræða um það að eins og staðan er í dag hafa menn verið á biðlistum í ákveðnum deildum og ákveðnum sjúkrahúsum og ekki fengið að fara í aðgerðir á öðrum stofnunum jafnvel þó að hagstæðara væri að láta vinna verkið þar. Ekki hefur verið mögulegt að færa t.d. sjúkling í mjaðmaaðgerð upp á Akranes frá ríkisspítölunum, ákveðin veldi hafa stjórnað því að þetta hefur ekki verið gert. Samið er um ákveðinn fjölda aðgerða og ekki hefur verið hægt að breyta því — blönduð fjármögnun og að fjármagn fylgi sjúklingi er m.a. til að koma til móts við þetta, þ.e. að auðveldara verði að láta verkefnin fara á milli sjúkrahúsa til nýrra staða, hvort það verða Selfoss, Reykjanes, Akranes, Akureyri o.s.frv. Síðan var það markmið sett að nýta ætti fjármagnið sem best og bæta áætlunargerð.

Ég held að allir þeir sem hér hafa talað hafi bent á að sú aðferð sem notuð er í fjárlögum — ég hef aðeins verið við gerð einna fjárlaga og er í fjárlaganefnd — gengur engan veginn upp. Ég held að við verðum bara að vera hreinskilin með það. Aftur og aftur er farið í fjáraukalög, að því er mér sýnist, og á síðasta ári settum við m.a. inn í ríkisspítalana í Reykjavík 2 eða 3 milljarða sem hét svo hjá Vinstri grænum niðurskurður í heilbrigðisþjónustu. Þetta eru gríðarlegir peningar og þetta hefur þurft að gera ár eftir ár sem þýðir að áætlanirnar eru ekki betur gerðar. Kostnaður fer vaxandi og menn hafa ekki náð utan um þetta. Þarna eru hlutir sem þarf að bæta. Heilsugæslan sat að sumu leyti eftir. Þó að hún fengi verulegar lagfæringar dugði það engan veginn til.

Við búum við það í dag að þrátt fyrir útgjaldaaukningu og þrátt fyrir leiðréttingar á síðasta ári þá er ástandið þannig að þegar sjúklingum fjölgar á einstökum sjúkrahúsum úti á landi fylgir fjármagn ekki með, fjármagnið fylgir ekki sjúklingum. Þessar stofnanir eru á föstum fjárlögum og þeim er gert að halda rekstri sínum innan marka óháð því hver þörfin er. Ég er nýkominn frá Patreksfirði þar sem við höfum verið að skoða þetta. Þar sjáum við að innlagnir eru fleiri en gert var ráð fyrir í áætlunum og kerfið var ekki viðbúið að bregðast við. Það er rétt að hægt er að leysa þetta með ýmsum hætti en þetta er ein af ástæðum þess að menn hafa verið að reyna að finna lausnir og frumvarpið sem hér liggur fyrir er tilraun til slíks.

Þegar rætt er um sjúkratryggingastofnun finnst mér stundum gæta mikils misskilnings. Ekki er í sjálfu sér verið að breyta því hverjir eru notendur þjónustunnar, það liggur fyrir hverjir það eru. Ekki er heldur verið að breyta þeim lagaramma sem gildir um heilbrigðisþjónustu í landinu. Hann er nýsamþykktur, var samþykktur á þinginu 2007, ef ég veit rétt, og ekki er verið að breyta neinu í honum eða óverulegu, eingöngu því er varðar sjúkratryggingastofnun. Fyrst og fremst er verið að breyta því að samningagerð sem áður var í ráðuneytinu, í sérstökum hópum sem stóðu að því að gera samninga, bæði við heilbrigðisstéttir og þá sem tóku að sér verkefni á vegum ríkisins, er færð undir sjúkratryggingastofnun. Af hverju er verið að því? Það er til þess að byggja upp betri þekkingu, nýta reynslu í allri samningagerð til að tryggja að hún verði markvissari og vandaðri. Verkefni þeirrar stofnunar er fyrst og fremst að semja við þá aðila sem veita þjónustuna, hvort sem það eru sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, félagasamtök eða fyrirtæki. Allir þessir aðilar eru inni í myndinni í dag. Það er verið að semja við alla þessa aðila í dag. (Gripið fram í: Það er búið að banna að semja við stéttarfélögin.) Það er frammíkall hér varðandi stéttarfélögin og það er einfaldlega vegna þess að við búum við það kerfi að ef einstakar stéttir, eins og dæmi eru um, geta tekið sig saman og sett skrúfu á ríkiskerfið, neitað að sinna þjónustu, þá er samningsstaðan ekki mjög góð. Þetta er verið að reyna að fyrirbyggja með þeim hætti að ekki sé hægt að vera með samráð þarna frekar en á öðrum sviðum í sambandi við samningagerð við ríkið. Það er það eina sem verið er að breyta. Það er sem sagt verið að byggja upp nýtt reglukerfi í sambandi við samninga um einstök verk í heilbrigðiskerfinu og það er það sem verið er að gera og hvernig á þá að standa að því.

Tekið er fram, þegar menn eru að ræða um sjúkratryggingafrumvarpið, að ekki er eingöngu verið að ræða um peninga. Það er ekki hugmyndin að eingöngu sé samið um peninga. Það hefur líka komið fram hér fyrr í umræðunni að ekki er heldur samið um að þetta séu bara verk unnin óháð staðsetningu. Það er viðkomandi stofnunar og stjórnvalda á hverjum tíma að ákveða með hvaða hætti við tryggjum að aðgengi að slíkri þjónustu sé jafnt um landið, hvar hún fer fram o.s.frv. Það sem hefur einmitt verið rætt í sambandi við það sem þarf að semja um í slíkum samningum er aðgengið. Hvar er aðgengið að slíkri þjónustu? Er hún dreifð um landið, er hún á höfuðborgarsvæðinu, í kragasjúkrahúsunum, á Akureyri? Það er þessi jöfnuður um aðgengi sem hefur verið ræddur mikið hér, það er öryggið, það að geta fengið þjónustu þegar maður þarf á henni að halda innan einhvers ákveðins tilgreinds tíma, það er verið að ræða um gæði, það verður ekkert slakað á slíku í samningagerðinni. Það er reiknað með því að menn vinni almennilega að gæðum í sambandi við þessa vinnu og svo kemur auðvitað kostnaðurinn.

Takið eftir því að ég nefni kostnaðinn síðast og þannig hefur það verið í mörgum kynningum á þessum breytingum að það er aðgengi, öryggi, jöfnuður, gæði á undan kostnaði. Allt verður að spyrða saman og menn hafa m.a. verið að sækja reynslu út fyrir landsteinana, m.a. til Svíanna — fyrstu samningarnir sem gerðir voru í heilbrigðiskerfinu voru eingöngu byggðir á peningum. Það reyndist illa. Menn urðu að gera svo vel og skoða aðra þætti og af því eigum við að læra. Við eigum að hoppa yfir það þrep að ætla að láta peningasjónarmið ráða. Það verður að byggja á þeim atriðum sem ég var að nefna.

Af hverju styð ég frumvarpið? Fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrr í umræðunni að við ætluðum að gera þetta með lokuð augu nema einhverjir örfáir þingmenn Samfylkingarinnar. Það er út af fyrir sig dæmigert að vera með þann hroka að það sé bara einn flokkur sem les mál og kynnir sér þau, aðrir láti stýrast af einhverjum öðrum hvötum. Ég ætla ekki að sitja undir því. Þó að ég sé ekki í heilbrigðisnefnd hef ég að sjálfsögðu fengið tækifæri til að taka þátt í töluvert djúpri umræðu um frumvarpið og ég get alveg sagt af hverju ég styð það. Það er vegna þess að við höfum sett inn í frumvarpið að ekki eigi að breytu þessu með aðgengi og efnahag og raunar er ríkur vilji fyrir því að aðgengið verði óháð búsetu líka. Ég talaði um það áðan að aðgengið skipti máli og hafði þá búsetu líka í huga, þ.e. að hve miklu leyti er hægt að veita þjónustuna í námunda við þá sem þurfa á henni að halda.

Ekki er verið að breyta kostnaðarhlutdeild, það liggur ekki í þessu frumvarpi sérstaklega. Hvort það verður gert í næsta skrefi — mér er ekki kunnugt um nein slík áform og get því stutt frumvarpið. Ekki er heimilt að veita forgang, þ.e. menn geta ekki verið með fyrirtæki úti í bæ, fengið greiðslurnar frá ríkinu og leyft mönnum síðan að kaupa sig fram fyrir í röðinni. Það er tekið sérstaklega fram að það er ekki heimilt. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég styð frumvarpið. Ekki er verið að skerða réttindi sjúklinga almennt. Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég styð frumvarpið. Ég treysti því og trúi að menn tryggi aðgengi minni sjúkrahúsa úti á landi, hvort sem það er í Stykkishólmi, á Akranesi, á Selfossi, í Neskaupstað — að þau eigi möguleika á að taka að sér þjónustu frá þessari sjúkratryggingastofnun í útdeilingu á verkefnum. Þeir geta með þeirri aðstöðu sem þar er, og því fólki sem þeir hafa, boðið samkeppnishæft verð, þjónustu og gæði á viðkomandi stöðum. Ég treysti á að það verði hægt, þess vegna styð ég frumvarpið.

Ef maður veltir því fyrir sér hvaða aðrir kostir hefðu verið til staðar, hvað annað við hefðum átt að gera — og það er kannski það sem ég sakna mest í gagnrýni á frumvarpið að ekki skuli meira púðri hafa verið eytt, ekki nema einni eða tveimur setningum, í að tala um hvernig hægt hefði verið að gera hlutina með öðrum hætti. (ÁI: Hvaða rugl er þetta?) Ekki hafa komið fram margar tillögur, ég hlustaði á umræðuna í allan dag. Ég hef ekki heyrt margar tillögur um með hvaða hætti hægt væri að gera þetta öðruvísi.

Af hverju eigum við að halda þessu óbreyttu? Af hverju erum við svo hrædd við að breyta ef þessir rammar eru hafðir nokkuð tryggir? Ég glími ekki við þann ótta. Ég þori að stíga fyrsta skrefið, eða eitt skref, það er ekki víst að þau verði mörg. En það er innifalið í samfélagi okkar að á hverjum tíma þurfum við að aðlagast nýjum aðstæðum og bregðast við því sem er að gerast. Ég tel að við séum að því hér. Þrátt fyrir að við eigum gott heilbrigðiskerfi þá nefndi ég áðan mikilvæga ástæðu þess að við þurfum að skoða með hvaða hætti við stjórnum fjárstreymi til heilbrigðismála og sjúkratryggingastofnun er fyrst og fremst tilraun til að ná utan um það og koma að því með skipulegum hætti einmitt til að gera þetta gagnsætt og koma þar á reglum. Það á að vera uppi á borðinu eftir hvaða reglum sjúkratryggingastofnun vinnur, hvaða skilmála hún setur. Menn hafa óttast einkavinavæðingu en ekkert í frumvarpinu eykur líkurnar á því, þvert á móti. Það ætti að vera auðveldara að halda betur utan um það.

Það er gott að þessi umræða hefur átt sér stað og efasemdarraddir eru mikilvægar í umræðu vegna þess að mikilvægt er að skoða alla fleti á málum og velta þeim upp. Það er mikilvægt að gagnrýna það sem verið er að gera. Ég ætla ekki að kveinka mér undan þeirri gagnrýni, ég held að hún sé nauðsynleg, það þarf að fara með varúð. En ég er ekki hræddur við frumvarpið. Ég styð það ekki af nauðung, tel þvert á móti að við séum að stíga jákvæð skref og ég held að áhættan sé ekki mikil. Ég tel þetta vera framfaraspor.

Við skulum sjá hvort þær hrakspár sem hér hafa komið fram, sem hafa einkennst af upphrópunum — eins og þetta með að við séum þjónar einhvers óskilgreinds íhalds, íhaldið í landinu er öflugast innan Vinstri grænna — og því að þetta sé dapurleg staðreynd. Þetta eru orð sem hafa verið notuð fyrr í umræðunni. Þetta er svo sem ekki málefnaleg umræða. (SJS: Viltu þá ekki vera málefnalegur.) Ég hef verið það í innganginum, ekki varðandi þessar athugasemdir hér í lokin einfaldlega vegna þess að þær eru étnar upp eftir Vinstri grænum og þeir hafa ekki verið að segja neitt málefnalegt. Ég lenti í því sem skólastjóri að afgreiða mál nemanda. Það alvarlegasta sem hann hafði gert var að hann sagði við kennarann: Sömuleiðis. Ég gat ekki annað en tekið undir að það væri mjög gróf aðför nemandans að kennaranum vegna þess að orð kennarans voru svo ljót. Hafi ég verið ómálefnalegur er það vegna þess að ég hef verið að vitna í ræður annarra í dag.