135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:10]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson situr í fjárlaganefnd Alþingis og þekkir vel vinnubrögðin þar. Hann þekkir líka rekstrarstöðu nær allra heilbrigðisstofnana og þekkir hvað hún hefur verið erfið og kennir m.a. um því fyrirkomulagi sem við höfum að reksturinn sé á föstum fjárlögum.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki með öðrum í fjárlaganefnd farið vel yfir rekstraráætlanir og þjónustu þessara stofnana, hvort ekki hafi verið litið til breytinga í þjónustunni, hvort ekki hafi verið litið til svæðisbundinna þátta eins og íbúafjölgunar og dreifbýlis og hvort fjárlaganefnd hafi ekki oft og tíðum þótt ástæða til að auka fjárframlag til stofnana umfram einhverja flata prósentu eins og hann var að vísa til í fjárlagagerðinni. Er það bundið við föst fjárlög að ekki sé hægt að vinna að fjárlagagerðinni með betri hætti en gert er í dag? Er ekki hægt að nota DRG-greininguna inn í fjárlögin og skoða kostnaðinn hjá þeim heilbrigðisstofnunum sem veita þjónustu sem DRG-greiningin fellur undir? Er ekki hægt að horfa á reksturinn — ég nefni enn og aftur Heilbrigðisstofnun Austurlands sem gerði vel grein fyrir því hvers vegna rekstrarstaðan var eins og hún var og hvers vegna vantaði þessar 200 millj. Er hægt að ætlast til þess að hún komist fram úr því með þeim auknu þjónustuskyldum sem hún hefur? (Forseti hringir.) Eru þetta eingöngu föst fjárlög?