135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:13]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski rangt hjá mér að nota orðið „föst fjárlög“ af því að þetta eru ekki einfaldar prósentuhækkanir heldur er þetta, eins og hv. þingmaður nefndi, mat á aðstæðum sem ráða fjárveitingum frá ráðuneytinu. Eftir sem áður stendur að áætlað er að innlagnir séu svo og svo margar, einhver ákveðin viðmið eru lögð til grundvallar. Verði breytingar á því úti á landi, eins og á Patreksfirði, á Hvammstanga eða á Austurlandi, er sveigjanleikinn í kerfinu ekki ýkjamikill í dag. Það eru fleiri gallar á kerfinu nú þegar sem tengjast kannski ekki þessu beint en tengjast hinum svokölluðu reiknilíkönum eða þeim greiningum sem eiga sér stað í upphafi.

Ég ætla ekki að ræða einstakar stofnanir en ég held aftur á móti að allir sjái í hendi sér að fjárlaganefnd verður ekki besti aðilinn til að vinna úr DRG-greiningum í heilbrigðisþjónustu. Þar verða aðrir aðilar að koma til og það er einmitt ástæðan fyrir því að við erum að tala um sjúkratryggingastofnun að við fáum þá sérfræðiaðstoð frá aðilum sem til þess eru bærir og þá verður sveigjanleikinn innan ársins mögulegur, þ.e. við höfum heildarsýnina ef tilfærslur verða innan landsins — ef augljóst er að þörfin verður meiri á Patreksfirði en gert var ráð fyrir, þá verður væntanlega, ef ekki er um að ræða verulegan innflutning á fólki, að draga úr einhvers staðar annars staðar á sama tíma, þá fylgir fjármagnið verkefninu. Það er hægt að mæta þessu með ýmsu móti en sjúkratryggingastofnun er leið til að taka á því og ég hefði talið að sú leið sé ásættanleg.