135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:15]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sjúkratryggingastofnunin felur í sjálfu sér ekkert varðandi landsbyggð eða þéttbýli. Það þarf að vera einhver ákveðin pólitísk ákvörðun um að aðgengið sem ég ræddi um áðan, sem er hluti af þessu öllu saman, verði boðið þannig út að þessi verkefni verði áfram á landsbyggðinni. Á það treysti ég og talað er um að það eigi ekki að breyta því í þessu máli. Það er ekkert innbyggt í sjálfu frumvarpinu um þetta þannig að samkeppnin getur orðið gríðarlega öflug einmitt frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum úti á landi sem vinna nú þegar ýmis verkefni og gætu gert þetta miklu betur en stóru spítalarnir hér en eftir sem áður er verið að senda fólk á landsbyggðinni til Reykjavíkur til að sækja þessa þjónustu. Ég bind auðvitað miklar vonir við að þetta fari í öfuga átt, þ.e. að aukning verði úti á landsbyggðinni.