135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:28]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að játa það á mig að ég hélt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon væri kominn í ræðu en ekki andsvar þannig að ég lagði ekki alveg á mig þær athugasemdir sem komu. Ég ætla samt að reyna bregðast við. (SJS: Nútímavæðingin.) Það er nútímavæðingin, það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við höfum nútímavætt heilbrigðiskerfið og höfum staðið okkur mjög vel eins og ég tók fram í ræðu minni. Aftur á móti get ég ekki sagt það sama um ytri umbúnað í sambandi við fjárveitingavaldið eða með hvaða hætti við stýrum og deilum niður þessum verkefnum, hvort sem það er á milli sjúkrahúsa eða út á landsbyggðina miðað við Reykjavík. Ég vil gjarnan sjá þar nútímalegri vinnubrögð og auðvitað markvissari pólitísk viðbrögð líka við því hvar á að vinna þessi verk, og að við jöfnum aðstöðuna og aðgengið og fylgjum því eftir sem þar er.

Varðandi athugasemdir mínar um hroka sem ég ræddi um þá var það bara ein tilvitnun í ræðu sem ég skráði niður meðan ég hlustaði á umræðuna fyrr í dag. Þar var sagt að við mundum greiða atkvæði með sjúkratryggingafrumvarpinu með bundið fyrir augun. Það eru ekki mín orð, það var haft eftir hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrr í umræðunni. Ég var að biðjast undan þess konar málflutningi.

Ég held að við getum verið sammála um að bæta þarf fjárveitingar til sjúkrahúsa. Það er rétt að oft hafa komið umsóknar um viðbætur og annað slíkt. Því miður er fjárlagagerðin ekki alltaf það gegnsæ að við fáum að sjá hver upprunalega óskin er. Dreifingin á fjárveitingum hefur líka verið mjög gölluð, þ.e. nú er það þannig að menn verða fyrst að greiða launin og annað rekstrarfé fá þeir ef afgangur er eftir að laun hafa verið greidd. Ég tel þetta vera fáránlegt kerfi og útilokað að hafa það óbreytt vegna þess að eftir sitja einstaka heilbrigðisstofnanir úti á landi án þess að fá nokkurt einasta rekstrarfé út af (Forseti hringir.) þessu fyrirkomulagi.