135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[21:31]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður og ég getum orðið sammála um að hvorki sjúkratryggingastofnunin né reiknilíkönin leysa allan vanda. Aftur á móti tel ég að hér sé verið að stíga réttara skref en gert hefur verið í mörgum öðrum aðferðum sem hafa verið nefndar til að leysa málið og þess vegna styð ég þetta frumvarp. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að fara í nákvæmari greiningar — að því gefnu og það er gefið upp í þessum umræðum öllum, að það sé ekki eingöngu fókus á fjármagn, það er fókus á aðgengi, á gæði og þá þjónustu sem veitt er. Það er það sem á að vera forgangurinn í þessari vinnu.

Og að því gefnu þá sé ég heldur ekki hvað mælir gegn því að starfsmenn Tryggingastofnunar sem hafa unnið þessa vinnu færist yfir í sjúkratryggingastofnun. Við bætum við reynslubankann og búum til öflugra batterí sem getur sinnt þessu betur. Hvað er svona neikvætt við það?

Við höfum rætt um þetta sem einkavæðingu. Hér varð gjaldfall á því orði þegar hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var komin niður í hálfmarkaðsvæðingu yfir hugtakið. (Forseti hringir.) Við getum leikið okkur með orð en það er ekki einkavæðing sem er tilgangurinn með sjúkratryggingastofnun.